Viðskipti erlent

Statoil skilaði 1.300 milljarða hagnaði

Norska olíufélagið Statoil skilaði hagnaði á öðrum ársfjórðung sem önnur norsk félög geta aðeins dreymt um. Hagnaðurinn nam 61 milljarði norskra kr. eða um 1.300 milljörðum kr. Þetta er aukning um 26,6 milljarða norskra kr. frá sama tímabili í fyrra.

Þetta er mesti hagnaður í sögu félagsins. Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no segir að hagnaðurinn hafi verið töluvert umfram spár sérfræðinga sem gerði ráð fyrir rúmlega 50 milljarða norskra kr. hagnaði á ársfjórðungnum.

Miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði á olíu og gasi undanfarið ár skýra þennan hagnað að miklu leyti hjá Statoil því í raun minnkaði olíuframleiðsla félagsins milli ára. Var framleiðslan af olíu þannig tæplega 1,7 milljónir tunna á dag á öðrum ársfjórðungi á móti tæplega 2 milljón tunna framleiðslu á dag á sama tímabili í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×