Viðskipti erlent

Þrefalt sölumet hjá Mercedes Benz

Árið í ár hefur verið gjöful fyrir framleiðendur Mercedes Benz bifreiða. Þrefalt sölumet hefur verið slegið. Um er að ræða mestu sölu í einstökum mánuði, það er júní s.l., mestu sölu á einum ársfjórðungi og mestu sölu á hálfu ári.

Í júní voru seldir 120.500 Mercedes Benz bílar á heimsvísu sem er 6,4% meiri sala en í júní í fyrra þegar fyrra sölumet fyrir einn mánuð var slegið. Þessi sala þýddi að á öðrum ársfjórðungi ársins seldust rétt tæpir 330.000 bílar sem er 7,2% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa 610.500 Mercedes Benz bílar selst sem er 9,7% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Það er einkum í BRIK löndunum svokölluðu, Brasilíu, Rússlandi, Indlandi og Kína, sem mikil aukning hefur orðið á sölu Mercedes Benz bíla í ár. Sem dæmi má nefna að salan í Rússlandi hefur aukist um rúm 70% og í Kína hefur hún aukist um rúm 52% miðað við árið í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×