Viðskipti erlent

Goldman Sachs spáir 130 dollara olíuverði í árslok

Greining Goldman Sachs spáir því að heimsmarkaðsverð á Brent olíunni fari í 130 dollara á tunnuna í lok þessa árs. Þetta er endurmat á fyrri spá sem gerði ráð fyrir að verðið yrði 120 dollarar. Í morgun hefur olíuverð hækkað aðeins og stendur Brentolían í 111 dollurum á tunnuna.

Fjallað er um málið í Financial Times. Þar segir að Goldman Sachs boði að botninn sé dottinn úr þeim lækkunum sem urðu á hrávörum í upphafi maí mánaðar en lækkanirnar voru um 9% að meðaltali. Því mælir bankinn með því við viðskiptavini sína að þeir fjárfesti að nýju í olíu, kopar, zinki og fleiri hrávörum.

Financial Times hefur það eftir einum af hrávörusérfræðingum Goldman Sachs að ef OPEC ríkin nái ekki samkomulagi um aukna olíuframleiðslu á fundi sínum 8. júní n.k. mun það þýða verulega lækkun á olíubirgðum í heiminum. Þar að auki hafi ástandið í Líbýu einnig áhrif á olíubirgðirnar.

Til samanburðar má geta að JP Morgan spáir því að Brentolían fari í 120 dollara á tunnuna í árslok en spá Barclays Capital hljóðar upp á 112 dollara á tunnuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×