Viðskipti erlent

Facebook í rógsherferð gegn Google

Facebook gekk skrefinu of langt í baráttu sinni gegn Google með því að ráða almannatengslastofu til að fara í rógsherferð gegn Google. Þetta kemur fram á vefsíðunni business.dk.

Þar segir að Facebook hafi ráðið með leynd almannatengslastofuna Burson-Marsteller til að dreifa neikvæðum sögum um svokallaða Social Circle þjónustu Google í fjölmiðla. Þessi þjónusta samhæfir notendur gmail hjá Google við Facebook.

Á business.dk kemur fram að fréttamenn og bloggarar hafi strax fundið út að söguburður Burson-Marsteller hélt ekki vatni. Þeir fóru því að spyrja almannatenglana hver hefði ráðið þá til að dreifa þessum sögum.

Aðspurður um málið segir talsmaður Facebook í samtali við The Daily Beast að Facebookmenn telji að þjónusta Google gangi of langt gegn einkalífi notendanna. Þar að auki séu þeir óánægðir með að Google setur upplýsingar frá Facebook inn á sínar síður sem þeir telja vera brot á reglum Facebook.

Hingað til hefur Google ekki viljað tjá sig um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×