Viðskipti erlent

Dópsalar tapa tugum milljóna á dag

Danskir dópsalar tapa nú tugum milljóna kr. á hverjum degi þar sem Kristjanía í Kaupmannahöfn er lokuð og hefur verið svo undanfarna þrjá daga. Það eru íbúar Kristjaníu sem hafa sjálfir lokað staðnum en lokunin er mótmæli gegn áformum stjórnvalda um að gera Kristjaníu að venjulegu íbúðahverfi.

Fjallað er um málið í Politiken. Þar er haft eftir Jens Jespersen aðgerðastjóra lögreglunnar á Amager að áætlað sé að hasssalan í Pusher Street í Kristjaníu velti um milljarði danskra kr. á ári. Því megi segja að dópsalarnir tapi um 2,7 milljónum danskra kr., eða nær 60 milljónum kr., veltu á hverjum degi sem Pusher Street er lokað.

„Það leikur enginn vafi á því að dópsalarnir tapa verulegri veltu á því að Kristjanía er lokuð," segir Jsepersen.

Nýlega lauk dómsmáli fyrir Hæstarétti Danmerkur þar sem niðurstaðan var að stjórnvöld en ekki íbúarnir hafa umráðaréttinn á Kristjaníu. Í framhaldi af því hafa stjórnvöld gert íbúum staðarins tilboð um að þeir geti keypt íbúðir sínar í Kristjaníu á hagstæði verði. Þetta hafa íbúarnir ekki viljað fallast á og fyrr í vikunni gripu þeir til þess ráðs að loka staðinn af með því að byrgja fyrir öllum inn- og útgönguleiðum að Kristjaníu.

Aðspurður um hve lengi hann telji að Pusher Street verði lokað segir Jespersen að það verði ekki lengi. „Ætli þeir verði ekki búnir að opna um helgina," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×