Körfubolti

Íris: Ég gæti alveg vanist þessu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íris, til hægri, með Fanneyju Guðmundsdóttur.
Íris, til hægri, með Fanneyju Guðmundsdóttur. Mynd/ÓskarÓ
Íris Ásgeirsdóttir, fyrirliði Hamars, tók við bikar í leikslok þrátt fyrir að Hamar tapaði 57-63 á móti KR í kvöld. Haukastelpurnar unnu í Keflavík og sáu til þess að Hamar er orðinn deildarmeistari í fyrsta sinn í sögunni.

„Þetta er mjög skrítið og ég bjóst ekki við þessu á síðustu sekúndunni þegar ég sá að við vorum ekki með þetta," sagði Íris eftir leikinn.

„Við lentum undir í fyrri hálfleik en vorum búnar að ná þeim strax í þriðja leikhlutanum og vorum komnar yfir í fjórða leikhlutan. Það var hinsvegar erfitt að koma til baka og við höfðum ekki orkuna í lokin," sagði Íris en Hamar lenti mest 17 stigum undir í fyrri hálfleiknum.

„Gústi (Ágúst Björgvinsson þjálfari) sagði okkur að kíkja á bikarana í hálfleik og sjá hvort við vildum þetta ekki ekki öruggleg nógu mikið. Við vildum þetta alveg nógu mikið og ég held að við höfum sýnt það í þriðja leikhlutanum. Það vantaði bara aðeins upp á," sagði Íris en nú er úrslitakeppnin framundan.

„Þetta verður bara erfiðara og erfiðara með hverjum leiknum og það er bara skemmtilegra. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli að vera með heimavallarréttinn í úrslitakeppninni og við sáum það náttúrulega í fyrra þegar við spiluðum oddaleikinn um titilinn út í KR," sagði Íris en Hamarsliðið tapaði þá fyrir KR í oddaleik um titilinn.

Nú er hinsvegar fyrsti titilinn í höfn og Íris hefur beðið lengst eftir honum af öllum í liðinu enda búinn að spila með liðinu síðan að það var að byrja í 2. deildinni fyrir sex árum.

„Ég er búin að bíða eftir þessu alltof lengi og það er bara það besta í heimi að vinna loksins titil. Ég gæti alveg vanist þessu," sagði Íris að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×