Innlent

Kókaínsmygl og peningaþvætti

innvortis Parið var með nær kíló af kókaíni innvortis.
innvortis Parið var með nær kíló af kókaíni innvortis.

Tveir karlmenn og tvær konur hafa verið ákærð fyrir fíkniefnasmygl, peningaþvætti og sölu fíkniefna. Hinir ákærðu eru íslensk, karl og kona, svo og par af erlendu bergi brotið.

Síðarnefnda parið er ákært fyrir að hafa staðið saman að innflutningi á rúmlega 800 grömmum af kókaíni frá Dóminíska lýðveldinu. Efnin fluttu þau innvortis, en maðurinn hafði lagt á ráðin um fjármögnun og ferðatilhögun vegna smyglsins.

Hjúin losuðu sig við efnin á Hótel Fróni á Laugavegi í Reykjavík. Lögregla fann kókaínið tveimur dögum síðar á dvalarstað mannsins.

Sami maður er einnig ákærður fyrir peningaþvætti. Hann seldi fíkniefni fyrir 1,2 milljónir á árunum 2008 til 2009, sem hann hafði sjálfur smyglað til landsins.

Íslenska konan, sem ákærð er í málinu, geymdi fíkniefnaágóðann fyrir manninn. Maðurinn hafði einnig látið hana fá kókaín og marijúana, auk þess sem hann lét íslenska karlmanninn ákærða fá kókaín til að selja. Íslendingurinn er því ákærður fyrir kókaínsölu en einnig peningaþvætti þar sem hann var í vitorði með konunni um geymslu á fyrrnefndum fíkniefnagróða.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×