Anna Margrét Björnsson: Stimpilglaða þjóðfélagið Anna Margrét Björnsson skrifar 7. apríl 2010 00:01 Börn velta ekki fyrir sér litarhætti, heilsufarsástandi eða kynferði fólks. Í bernsku eru stimplar óþarfir og ómótað barnseðlið segir þeim einfaldlega að fólk sé fólk. Þannig getur barn átt vin af afrísku bergi brotinn í heilt ár án þess að finnast það þurfa sérstaklega að útskýra litarhátt vinarins á nokkurn hátt fyrir foreldrunum. Og börnum finnst fordómar afa þeirra og ömmu gagnvart samkynhneigðum einfaldlega skrýtnir. Fordómar orsakast auðvitað næstum einungis af hræðslu við hið óþekkta og þessum fordómum er þröngvað upp á okkur af kynslóðum fortíðarinnar. Stundum verður maður líka að fyrirgefa þessum elstu kynslóðum sem vissu ekki betur. Maður verður að brosa út í annað og skilja af hverju til dæmis elsku langamma heitin slökkti alltaf á útvarpinu þegar Páll Óskar hóf upp raustina. Henni fannst hann svo sætur piltur með fallega rödd þangað til hún heyrði að hann væri „hinsegin" og fór bara að leggja kapal í þögn eldhússins í þær sirka þrjár mínútur sem hún vissi að lagið myndi spilast. Fólk komið yfir miðjan aldur er líka oft í vandræðum með að fylgjast með því hvaða orð má nota núna og hvað ekki. Það skilur ekki hvenær í þróun málsins orðin negri og orðið þroskaheftur fóru að teljast slæm. Má nota orðið hommi í dag og þykir orðið svertingi niðrandi? Fólk yfir fimmtugu er orðið hrætt við að tjá sig af hræðslu við hvernig orðin eru túlkuð. Handbók yfir það sem teljast pólitískt rétthugsandi orð er ekki til. Sumir miðaldra karlmenn á Íslandi eru sérstaklega viðkvæmir fyrir orðinu „femínisti". Í þeirra augum jafnast það næstum á við orðið „satanisti" og á við leiðindakerlingar sem vilja banna allt og stimpli þá alla sem einn sem ofbeldismenn og klámhunda. Þessir karlar geta aldrei rætt um málefnin sem snerta kvenréttindi vegna þess að það er einfaldara að hnussa „þessir femínistar" og afskrifa umræðuna með þeim stimpli. Hvernig væri heimur án þessara stimpla sem við erum svo gjörn á að setja á fólk? Heimur líkt og sá heimur sem börnin hafa fyrir augunum, þegar fólk er bara fólk hver svo sem litarhátturinn, kynferðið, kynhneigðin, þjóðernið, heilsufarið eða hátternið er. Stimpillinn forðar okkur frá óþægindunum sem það veldur okkur að reyna að skilja hver manneskjan á bak við stimpilinn er í raun og veru. Hvenær munum við geta hætt að finnast við tilneydd til að merkja alla svo að okkur líði betur? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Anna Margrét Björnsson Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt ! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena J. Mörtudóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun
Börn velta ekki fyrir sér litarhætti, heilsufarsástandi eða kynferði fólks. Í bernsku eru stimplar óþarfir og ómótað barnseðlið segir þeim einfaldlega að fólk sé fólk. Þannig getur barn átt vin af afrísku bergi brotinn í heilt ár án þess að finnast það þurfa sérstaklega að útskýra litarhátt vinarins á nokkurn hátt fyrir foreldrunum. Og börnum finnst fordómar afa þeirra og ömmu gagnvart samkynhneigðum einfaldlega skrýtnir. Fordómar orsakast auðvitað næstum einungis af hræðslu við hið óþekkta og þessum fordómum er þröngvað upp á okkur af kynslóðum fortíðarinnar. Stundum verður maður líka að fyrirgefa þessum elstu kynslóðum sem vissu ekki betur. Maður verður að brosa út í annað og skilja af hverju til dæmis elsku langamma heitin slökkti alltaf á útvarpinu þegar Páll Óskar hóf upp raustina. Henni fannst hann svo sætur piltur með fallega rödd þangað til hún heyrði að hann væri „hinsegin" og fór bara að leggja kapal í þögn eldhússins í þær sirka þrjár mínútur sem hún vissi að lagið myndi spilast. Fólk komið yfir miðjan aldur er líka oft í vandræðum með að fylgjast með því hvaða orð má nota núna og hvað ekki. Það skilur ekki hvenær í þróun málsins orðin negri og orðið þroskaheftur fóru að teljast slæm. Má nota orðið hommi í dag og þykir orðið svertingi niðrandi? Fólk yfir fimmtugu er orðið hrætt við að tjá sig af hræðslu við hvernig orðin eru túlkuð. Handbók yfir það sem teljast pólitískt rétthugsandi orð er ekki til. Sumir miðaldra karlmenn á Íslandi eru sérstaklega viðkvæmir fyrir orðinu „femínisti". Í þeirra augum jafnast það næstum á við orðið „satanisti" og á við leiðindakerlingar sem vilja banna allt og stimpli þá alla sem einn sem ofbeldismenn og klámhunda. Þessir karlar geta aldrei rætt um málefnin sem snerta kvenréttindi vegna þess að það er einfaldara að hnussa „þessir femínistar" og afskrifa umræðuna með þeim stimpli. Hvernig væri heimur án þessara stimpla sem við erum svo gjörn á að setja á fólk? Heimur líkt og sá heimur sem börnin hafa fyrir augunum, þegar fólk er bara fólk hver svo sem litarhátturinn, kynferðið, kynhneigðin, þjóðernið, heilsufarið eða hátternið er. Stimpillinn forðar okkur frá óþægindunum sem það veldur okkur að reyna að skilja hver manneskjan á bak við stimpilinn er í raun og veru. Hvenær munum við geta hætt að finnast við tilneydd til að merkja alla svo að okkur líði betur?