Landið út við ysta sæ
oft er súrt að gista,
en bölvað ástand bætir æ
að berja nýnasista.
Unun veitir, ætla ég,
sem alldjúpt muni rista
og fráleitt vera leiðinleg,
að lemja nýnasista.
Svona lagað svínarí
er svívirða að vista.
Byrjum þegar bernsku í
að banka nýnasista
Hýða má og hæða hvasst,
höggva í spað og kvista,
bæði klípa, bíta fast
og buffa nýnasista.
Allir þeir sem yndi sjá
í ýmsum fögrum listum
láti ekki líða hjá
að lumbra á nýnasistum.
Íslendingur, af þér slen
ættir þú að hrista.
Engin list er ljúfari en
að lemstra nýnasista.
Frá því merlar morgundögg
uns myrkva fer og frysta
látum dynja hnefahögg
á hausum nýnasista.
Svo við getum sofið rótt,
sæl við hafið ysta,
verum dugleg dag og nótt
að dangla í nýnasista
Í víti senda vonda skal
veginn allra stysta.
Ég mana því hvern mætan hal
að mauka nýnasista.
Þar til bera burtu þarf
bjánana í kistum,
það sé landans líf og starf
að lúskra á nýnasistum.
