Eign í eigu þrotabús íslenska fasteignafélagsins Landic Property á Amager í Kaupmannahöfn er nú til sölu. Verðmæti hennar er metið á tæpan milljarð danskra kr. eða um 20 milljarða kr.
Eignin sem hér um ræðir er kölluð SAS húsin á Amager en um er að ræða fjögur hús sem flugfélagið leigir undir starfsemi sína þar á meðal hótel. Hún er í eigu þrotabús Landic Property Bonds I.
Í frétt um málið á business.dk segir að fjárfestirinn Ole Vagner hafi mikinn áhuga á að kaupa þessa eign en hann hefur reynt það áður án árangurs. Landic Protperty var meðal annars stofnað í kringum kaupin á fasteignafélaginu Keops sem var áður í eigu Vagner. Keops kemur við sögu bæði í rannsókn og húsleitum sérstaks saksóknara í vikunni sem og málinu sem slitastjórn Glitnis rekur gegn svokölluðum sjömenningum í New York.
Nú er formlegt söluferli á SAS húsunum hafin en skiptastjóri þrotabús Landic Property Bonds I segir í tilkynningu að þrotabúið telji best að nýir eigendur taki við rekstrinum á þessari eign.
Bygging SAS húsanna var fjármögnuð með 618 milljón danskra kr. láni frá þýskum banka. Þar að auki voru skuldabréf upp á 150 milljónir danskra kr. seld fjárfestum en eigið fé þrotabúsins er um 112 milljónir danskra kr. Í allt er um 989 milljónir danskra kr. að ræða sem þrotabúið vill fá fyrir þessa eign.
Ole Vagner segir í samtali við business.dk að hann hafi áhuga á að kaupa eignina enda hafi hann reynt það áður.