Viðskipti erlent

Írar gætu lært mikið af Íslendingum um viðbrögð við hruninu

Írar gætu dregið mikinn lærdóm af viðbrögðum Íslendinga við bankahruni Íslands haustið 2008. Þetta kemur fram í skýrslu írskrar þingnefndar

Um er að ræða fjárlaganefnd írska þingsins en tveir meðlimir hennar, Bernand Allen og Jim O´Keeffe, heimsóttu Ísland nýlega og var heimsóknin liður í rannsókn nefndarinnar á hruni írska bankakerfisins.

Greint er frá málinu í blaðinu Irish Times en þar er meðal annars fjallað um rannsóknarnefnd Alþingis og þá skýrslu sem sú nefnd gaf út.

Allen segir að það hafi komið á óvart hve bankahrun landanna tveggja líkjast hvort öðru. Hann segir hinsvegar að Íslendingar séu komnir mun lengra áleiðis í viðbrögðum sínum eftir hrunið en Írar eru.

Fjármálaráðherra Írlands, Brian Lenihan, tilkynnti fyrr í þessum mánuði að finnski embættismaðurinn Peter Nyberg myndi stjórna rannsóknarnefnd írsku stjórnarinnar um bankahrunið þar í landi.

Allen hvetur til þess að störf þeirrar nefndar verði byggð á sama grunni og störf rannsóknarnefndar Alþingis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×