Þjóðverjar settu hnefann í borðið og bönnuðu glæsivögnunum í Gumball-kappakstrinum að keyra á þýskum þjóðvegum í gær.
Kappaksturinn var blásinn í gang í London á laugardag. Í honum tekur þátt fjöldi stjarna og auðkýfinga. Frægt er þegar Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason, Magnús Ármann og fleiri tóku þátt í kappakstrinum árið 2006. Keyrð er alls um fimm þúsund kílómetra leið á þjóðvegum og haldin veisla á hverju kvöldi.
Í gærmorgun átti að keyra frá Amsterdam til Kaupmannahafnar. Réttur í Þýskalandi setti lögbann á kappaksturinn þannig að ferja þurfti bílana á stórum vögnum til Danmerkur. Þarna gæti spilað inn í umdeilt mál sem varð í kappakstrinum fyrir þremur árum. Þá létust tveir vegfarendur í Makedóníu í árekstri við enska kaupsýslumenn sem tóku þátt.

Gumball-kappaksturinn er nú haldinn í 12. skipti. Frá Kaupmannahöfn heldur hann til Stokkhólms. Þaðan er flogið vestur um haf til Boston, keyrt til Toronto og endað í New York.
Hér má sjá 20 mínútna myndband af öllum ofurbílunum taka af stað í London um helgina.