Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær þá eru félagarnir Auðunn Blöndal, Egill Gillzenegger Einarsson og Sveppi staddir í Mónakó þessa dagana þar sem lokamót Evrópumótaraðarinnar í póker fer nú fram.
Auðunn og Egill tóku þátt og sá fyrrnefndi datt út 40 mínútum áður en fyrsta degi lauk. Sá síðarnefndi komst í gegnum fyrsta dag, en datt út 40 mínútum eftir að mótið hófst á ný á degi tvö. Félagarnir duttu báðir út með tíupar á hendi.
Félagarnir eru einnig að taka upp þátt af Audda og Sveppa fyrir Stöð 2 í Mónakó og í nafni þess tók Sveppi þátt í fjölmiðlapókermóti sem haldið var í tengslum við Evrópumótaröðina.
Þetta bauð vitanlega upp á gott rugl að hætti þeirra félaga. Auðunn og Egill stóðu álengdar og stýrðu Sveppa í gegnum hljóðnema. Þetta varð meðal annars til þess að spilafélagar Sveppa sáu á honum bera bumbuna oftar en þeir kærðu sig um.