Körfubolti

Hóf vikuna með KR en endar hana með Haukum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Semaj Inge í leik með KR-ingum í vetur.
Semaj Inge í leik með KR-ingum í vetur. Mynd/Stefán

Semaj Inge fór ekki langt þegar KR-ingar ráku hann á miðvikudagskvöldið því þessi bandaríski bakvörður hefur gert samning við 1.deildarlið Hauka og ætlar að reyna að hjálpa Hafnarfjarðarliðinu að komast upp í Iceland Express deildina.

Semaj Inge stóð sig vel með KR í vetur en var fórnarlamb aðstæðna þar sem að Íslandsmeistararnir voru með tvo sterka leikmenn í sömu stöðu eftir að landsliðs-leikstjórnandinn Pavel Ermolinski kom í Vesturbæinn.

Semaj var með 18,7 stig, 5,4 fráköst og 5,2 stoðsendingar að meðaltali með KR-liðinu í Iceland Express deildinni en hann hafði aðeins skorað samtals fimmtán stig og hitt úr 4 af 28 skotum sínum í fyrstu tveimur leikjum Pavels með KR-liðinu.

Semaj Inge spilar væntanlega sinn fyrsta leik með Haukum í kvöld þegar Skagamenn koma í heimsókn á Ásvelli. Inge kemur í staðinn fyrir Landon Quick sem var látinn fara eftir þrjú töp Hauka í röð.

Haukar unnu 8 af 9 leikjum sínum kanalausir fyrir áramót en töpuðu 3 af 4 leikjum sínum með Quick innanborðs. Nú er að sjá hvort Inge geti hjálpað Haukum að komast á sigurbrautina á nýjan leik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×