Brasilíumaðurinn Kaka fór í hnéaðgerð í ágúst og hefur því ekkert spilað með Real Madrid á þessu tímabili. Læknir hans er sannfærður um að Kaka verði aftur einn af bestu fótboltamönnum heims.
„Endurhæfingin hans Kaka gengur mjög vel og hann er nú á lokasprettinum. Kaka er nú að vinna í að jafna vöðvastyrkinn í kringum hnéð til þess að gera orðið sami leikmaður og hann var árið 2007. Hann verður aftur einn af þeim bestu," sagði Turibio Leite í viðtali við spænska blaðið Marca í dag.
Real Madrid bjóst við að þessi 28 ára leikmaður yrði frá í allt að fjóra mánuði eftir aðgerðina en Real keypti hann á 65 milljónir evra frá AC Milan í júní 2009.
Kaka mun byrja að spila með Real í janúar en það er ekki að sjá að liðið sakni Brasilíumannsins mikið því Þjóðverjinn Mesut Ozil hefur spilað frábærlega síðan að hann kom frá Werder Bremen í haust.
Læknir Kaka: Hann verður aftur einn af þeim bestu í heimi
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
