Bakþankar

Ásættanlegt klám

Atli Fannar Bjarkarson skrifar
Borgarstjóranum okkar tókst að særa fullt af fólki í vikunni þegar hann sagðist nýta krafta netsins að mestu í klámáhorf. Orðin voru að vísu slitin úr samhengi og Jón fékk að koma hinu rétta á framfæri í íslenskum fjölmiðlum; Google og Facebook eru vinsælastar í vafra borgarstjórans. Áður en Jóni tókst að leiðrétta misskilninginn rauk fólk upp til handa og fóta og skiptist í tvo hópa, sem höfðu eins og venjulega engan áhuga á því að hlusta hvor á annan.

Stöð 2 sýndi heimildarþátt fyrir nokkrum vikum um sögu klámsins. Niðurstaða þáttarins var í stuttu máli sú að klám hefur alltaf fylgt manninum sem er rakið til hinnar íturvöxnu Venusar frá Willendorf sem var gerð milli 22.000 og 21.000 fyrir Krist. Það kom einnig fram að fyrstu myndavélarnar voru notaðar til að mynda klám, sem var furðu líkt því sem við þekkjum í dag (þau báru saman), þótt fólkið hafi verið öðruvísi vaxið. Loks kom fram að fyrstu kvikmyndirnar voru fjármagnaðar með klámgróða.

Klám er semsagt ekki nýtt af nálinni, þótt vandamálin sem fylgja því hafi vissulega náð áður óþekktum hæðum á tíunda áratug síðustu aldar og þeim fyrsta á þessari. Foreldrar glíma nefnilega við það hvimleiða vandamál að ala upp hina svokölluðu klámkynslóð. Þetta er kynslóð sem þekkir ekkert annað en að klám sé aðgengilegt á auðveldan hátt úr hvaða tölvu sem er. Það er af sem áður var. Þegar ég fékk fyrstu tölvuna mína eyddi ég mörgum dögum í að leita að mynd af Pamelu Anderson á brjóstunum. Þegar hún fannst prentaði ég út eintök handa vinum mínum, en aðeins einn þorði að hengja hana upp inni í herberginu sínu.

Klám er til vegna þess að fólk horfir á það. Við getum því gefið okkur að það verði alltaf til. Það er sama hversu vel okkur tekst að kæfa umræðuna um klám, blessuð börnin byrja að finna fyrir furðulegum tilfinningum þegar þau komast á unglingsaldur og þá finna þau klám til að svala hormónaþorstanum. En hvað er til ráða? Kannski þurfum við að sætta okkur við söguna og í staðinn fyrir að setja allt klám undir sama viðbjóðshattinn ættum við að fræða unglingana um hvað er rétt og rangt - eða draga línu þannig að þeir þekki muninn á ásættanlegu klámi og ofbeldisviðbjóði.

Það er nefnilega fólk innan klámiðnaðarins sem vill starfa innan klámiðnaðarins, eins óskiljanlegt og það kann að vera fyrir prúðmennin. Það er líka enn þá fólk að skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn. Ég skil það ekki, finnst það meira að segja frekar skrýtið, en hver í fjandanum er ég til að dæma?






×