Líkamsárásin Einar Már Jónsson skrifar 24. mars 2010 06:00 Þetta gerðist fyrir skömmu í framhaldsskóla í úthverfi skammt fyrir vestan París. Kennslukonan ætlaði að fara að tala við bekkinn um gamanleiki og slíkt, en þá datt henni í hug að spyrja nemendurna um það hvað þeim fyndist sjálfum vera fyndið, hvers konar gamansögur þeir segðu sín á milli. Nemendurnir urðu hissa andartak, litu hver á annan, og sögðu svo allir einum rómi: „Jússef, segðu nú eina sögu!" Jússef hikaði og lét ganga á eftir sér, en svo kom sagan: „Það var fyrsti skóladagurinn og kennarinn spurði lítinn dreng „hvað heitir þú?" og drengurinn svaraði: „ég heiti Múhameð". „Nei", sagði kennarinn, „þú heitir ekki Múhameð. Nú býrðu í Frakklandi og nú heitirðu Roger". Svo leið skóladagurinn, drengurinn fór heim til sín, og mamma hans spurði: „hvernig var í skólanum, Múhameð litli?" „Nú heiti ég ekki lengur Múhameð", sagði hann. „Nú búum við í Frakklandi og ég heiti Roger." Og það skipti engum togum, mamman rak syni sínum glymjandi löðrung. Skömmu síðar kom pabbinn heim og spurði drenginn sömu spurningar: „hvernig var í skólanum, Múhameð litli?" Og hann fékk sama svar og aftur fékk sonurinn löðrung. Þegar drengurinn kom í skólann daginn eftir spurði kennarinn: „hvernig líður þér í dag, Roger litli?" Og drengurinn svaraði: „Mér líður illa. Ég var ekki fyrr kominn heim til mín í gær en það réðust á mig tveir Arabar". Og bekkurinn veltist um af hlátri yfir sögu Jússefs. Um það leyti sem þessi saga var sögð í framhaldsskólanum var kosningabarátta fyrir héraðsstjórnarkosningar að hefjast í Frakklandi og þá gerðist sitthvað sem var ekki alveg eins spaugilegt. Þegar farið var að birta framboðslista heyrðist skyndilega hvellur: það fréttist sem sé að trotskíistar einhvers staðar í Suður-Frakklandi hefðu sett á sinn lista unga konu af marokkóskum uppruna sem væri með „blæju". Þetta þótti óskaplegt hneyksli, að sjálfir trotskíistarnir skyldu bjóða fram konu sem spókaði sig á almannafæri, jafnvel á framboðsfundum, með þetta skelfilega tákn hjátrúar, ofstækis og kvennakúgunar, ef ekki hryðjuverka. Konan fékk þó stuðning, en hann kom úr hinni óvæntustu átt, frá sjálfum höfuðpaurnum Le Pen, forsprakka þeirra sem eru allra lengst til hægri. „Það sést vel í andlit konunnar", sagði hann, „og það eitt skiptir máli. Annað er ekki nema smá sérviska í klæðaburði." Það hefur löngum verið leynivopn Le Pen, að stundum segir hann sitthvað sem liggur alveg í augum uppi og heilbrigð skynsemi gefur til kynna en ríkjandi rétttrúnaður bannar að sagt sé. Því svo fór pressan að birta myndir af konunni og þá kom í ljós að „blæjan" var ekki annað en lítil og einkar smekkleg skupla af því tagi sem íslenskar mjaltastúlkur hafa löngum borið. Einnig voru höfð viðtöl við frambjóðandann og virtist hún ekki síðri kvenréttindakona en hvaða trotskíisti annar, og reyndar margir fleiri en þeir. En látunum linnti ekki við það, blöðin birtu greinar og yfirlýsingar með röðum af undirskriftum þar sem menn viðruðu stöðugt hneykslun sína. Einnig létu merkingarfræðingar og táknfræðingar ljós sitt skína, og þeir sögðu: andlitsblæja er trúarlegt tákn og höfuðdúkurinn er það einnig, þarafleiðandi er höfuðdúkurinn „blæja". Við þessu var ekkert að segja. En svo féllu þessar umræður í skuggann fyrir öðru. Frambjóðendur stjórnarflokksins einhvers staðar í Norður-Frakklandi tóku að básúna í öllum fjölmiðlum að efsti maður á lista sósíalista í sama kjördæmi, Ali nokkur Soumaré, upprunninn frá Senegal, væri margdæmdur glæpamaður; heimtuðu þeir að sósíalistar drægju hann til baka og bæðust afsökunar. Þegar farið var að athuga málið kom í ljós að téður Ali hafði einhvern tíma fyrir mjög mörgum árum fengið að gista í steininum fyrir bernskubrek, sem hann var ekkert að draga fjöður yfir, en öðrum sökum neitaði hann sem von var, andstæðingar hans höfðu farið mannavilt, það var einhver allt annar Ali Soumaré sem hafði lent í kasti við lögin. Nú gerist það vafalaust á bestu bæjum að menn villist á Ali og Ali, en margir spurðu: hefði einhver farið að leita logandi ljósi í sakaskrám - sem hann átti reyndar ekki að hafa aðgang að - ef frambjóðandinn hefði ekki verið þeldökkur maður í úthverfi? Nóg er víst til af vandamálunum og því ekki ástæða til að búa til enn fleiri. Því er það fagnaðarefni, ef menn geta söðlað arabíska kinnhesta og hlegið að öllu saman. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Er samþykki barna túlkunaratriði? Ólöf Tara Harðardóttir Skoðun Skýr sýn og metnaður Hákon Stefánsson Skoðun Allir geta drukknað en enginn þarf að drukkna Hildur Vattnes Kristjánsdóttir Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun
Þetta gerðist fyrir skömmu í framhaldsskóla í úthverfi skammt fyrir vestan París. Kennslukonan ætlaði að fara að tala við bekkinn um gamanleiki og slíkt, en þá datt henni í hug að spyrja nemendurna um það hvað þeim fyndist sjálfum vera fyndið, hvers konar gamansögur þeir segðu sín á milli. Nemendurnir urðu hissa andartak, litu hver á annan, og sögðu svo allir einum rómi: „Jússef, segðu nú eina sögu!" Jússef hikaði og lét ganga á eftir sér, en svo kom sagan: „Það var fyrsti skóladagurinn og kennarinn spurði lítinn dreng „hvað heitir þú?" og drengurinn svaraði: „ég heiti Múhameð". „Nei", sagði kennarinn, „þú heitir ekki Múhameð. Nú býrðu í Frakklandi og nú heitirðu Roger". Svo leið skóladagurinn, drengurinn fór heim til sín, og mamma hans spurði: „hvernig var í skólanum, Múhameð litli?" „Nú heiti ég ekki lengur Múhameð", sagði hann. „Nú búum við í Frakklandi og ég heiti Roger." Og það skipti engum togum, mamman rak syni sínum glymjandi löðrung. Skömmu síðar kom pabbinn heim og spurði drenginn sömu spurningar: „hvernig var í skólanum, Múhameð litli?" Og hann fékk sama svar og aftur fékk sonurinn löðrung. Þegar drengurinn kom í skólann daginn eftir spurði kennarinn: „hvernig líður þér í dag, Roger litli?" Og drengurinn svaraði: „Mér líður illa. Ég var ekki fyrr kominn heim til mín í gær en það réðust á mig tveir Arabar". Og bekkurinn veltist um af hlátri yfir sögu Jússefs. Um það leyti sem þessi saga var sögð í framhaldsskólanum var kosningabarátta fyrir héraðsstjórnarkosningar að hefjast í Frakklandi og þá gerðist sitthvað sem var ekki alveg eins spaugilegt. Þegar farið var að birta framboðslista heyrðist skyndilega hvellur: það fréttist sem sé að trotskíistar einhvers staðar í Suður-Frakklandi hefðu sett á sinn lista unga konu af marokkóskum uppruna sem væri með „blæju". Þetta þótti óskaplegt hneyksli, að sjálfir trotskíistarnir skyldu bjóða fram konu sem spókaði sig á almannafæri, jafnvel á framboðsfundum, með þetta skelfilega tákn hjátrúar, ofstækis og kvennakúgunar, ef ekki hryðjuverka. Konan fékk þó stuðning, en hann kom úr hinni óvæntustu átt, frá sjálfum höfuðpaurnum Le Pen, forsprakka þeirra sem eru allra lengst til hægri. „Það sést vel í andlit konunnar", sagði hann, „og það eitt skiptir máli. Annað er ekki nema smá sérviska í klæðaburði." Það hefur löngum verið leynivopn Le Pen, að stundum segir hann sitthvað sem liggur alveg í augum uppi og heilbrigð skynsemi gefur til kynna en ríkjandi rétttrúnaður bannar að sagt sé. Því svo fór pressan að birta myndir af konunni og þá kom í ljós að „blæjan" var ekki annað en lítil og einkar smekkleg skupla af því tagi sem íslenskar mjaltastúlkur hafa löngum borið. Einnig voru höfð viðtöl við frambjóðandann og virtist hún ekki síðri kvenréttindakona en hvaða trotskíisti annar, og reyndar margir fleiri en þeir. En látunum linnti ekki við það, blöðin birtu greinar og yfirlýsingar með röðum af undirskriftum þar sem menn viðruðu stöðugt hneykslun sína. Einnig létu merkingarfræðingar og táknfræðingar ljós sitt skína, og þeir sögðu: andlitsblæja er trúarlegt tákn og höfuðdúkurinn er það einnig, þarafleiðandi er höfuðdúkurinn „blæja". Við þessu var ekkert að segja. En svo féllu þessar umræður í skuggann fyrir öðru. Frambjóðendur stjórnarflokksins einhvers staðar í Norður-Frakklandi tóku að básúna í öllum fjölmiðlum að efsti maður á lista sósíalista í sama kjördæmi, Ali nokkur Soumaré, upprunninn frá Senegal, væri margdæmdur glæpamaður; heimtuðu þeir að sósíalistar drægju hann til baka og bæðust afsökunar. Þegar farið var að athuga málið kom í ljós að téður Ali hafði einhvern tíma fyrir mjög mörgum árum fengið að gista í steininum fyrir bernskubrek, sem hann var ekkert að draga fjöður yfir, en öðrum sökum neitaði hann sem von var, andstæðingar hans höfðu farið mannavilt, það var einhver allt annar Ali Soumaré sem hafði lent í kasti við lögin. Nú gerist það vafalaust á bestu bæjum að menn villist á Ali og Ali, en margir spurðu: hefði einhver farið að leita logandi ljósi í sakaskrám - sem hann átti reyndar ekki að hafa aðgang að - ef frambjóðandinn hefði ekki verið þeldökkur maður í úthverfi? Nóg er víst til af vandamálunum og því ekki ástæða til að búa til enn fleiri. Því er það fagnaðarefni, ef menn geta söðlað arabíska kinnhesta og hlegið að öllu saman.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun