Viðskipti erlent

Harkalegt aðhald á Írlandi

Brian Cowen. Verkalýðsfélög á Írlandi eru óánægð og ætla að mótmæla á laugardag. Mynd/AP
Brian Cowen. Verkalýðsfélög á Írlandi eru óánægð og ætla að mótmæla á laugardag. Mynd/AP

Írska stjórnin kynnti í dag aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára, þær harkalegustu í sögu landsins. Hugmyndin er að lækka útgjöld um tíu milljarða evra og hækka skatta um fimm milljarða evra, þannig að fjárlagahallinn minnki samtals um fimmtán milljarða evra á tímabilinu 2011 til 2014.

Meðal annars missa þúsundir ríkisstarfsmanna vinnuna og lífeyrisgreiðslur og ýmis velferðarútgjöld verða lækkuð. Á móti verður virðisaukaskattur hækkaður úr 21 prósenti í 23 prósent en skattur á fyrirtæki verður þó óbreyttur í 12,5 prósentum.

Aðhaldsaðgerðir þessar eru í samræmi við þau skilyrði sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setja fyrir fjárhagsaðstoð upp á 85 milljarða evra.

„Þetta er vegvísir beint aftur til steinaldar," sagði Jack O'Connor, formaður SIPTU, stærsta verkalýðsfélags landsins, sem ætlar að efna til mótmæla á laugardag.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×