Fótbolti

Casillas fullur sjálfstrausts fyrir El Clasico

Elvar Geir Magnússon skrifar
Casillas og Ronaldo hressir saman fyrir vináttulandsleik Spánar og Portúgals á dögunum.
Casillas og Ronaldo hressir saman fyrir vináttulandsleik Spánar og Portúgals á dögunum.

„Undir stjórn Mourinho erum við orðnir vanir því að tapa ekki leik," segir Iker Casillas, markvörður og fyrirliði Real Madrid. Liðið mætir Barcelona annað kvöld í risaslag spænska boltans.

Aðeins eitt stig skilur að þessi tvö bestu lið Spánar og er mikil spenna fyrir leiknum um allan heim. Fjölmargir fótboltaunnendur munu koma sér vel fyrir í sófanum annað kvöld.

„Við erum ákveðnir í að vinna. Þrátt fyrir að við séum stigi á undan Barcelona þá munum við ekki sætta okkur við jafntefli. Þessi tvö lið eru svo jöfn að baráttan um titilinn gæti ráðist í innbyrðis viðureignunum þeirra á milli," segir Casillas.

Mikið er gert úr svokölluðu einvígi tveggja bestu knattspyrnumanna heims; Cristiano Ronaldo hjá Real Madrid og Lionel Messi hjá Barcelona. Ronaldo er þó sallarólegur yfir þessari umræðu.

„Þetta er allt mjög eðlilegt hjá fjölmiðlum. Þeir þurfa að selja blöðin og til að gera það þurfa þeir að blása allt svona upp. Þessi leikur snýst um allt annað og miklu meira en okkur tvo."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×