Öskjuhlíðarsamkeppni Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. júlí 2010 10:03 Á hlaupum á Akureyri sér maður haft í DV eftir Jóhannesi Jónssyni í Bónus að Hagar séu barnið hans. Og sárt að horfa upp á skiptingu fyrirtækisins. Honum væri nær að fagna því að vera loksins laus við þetta skrýmsli. Óskiljanlegt er að leyft skyldi á sínum tíma að sameina Bónus og Hagkaup í eitt allsherjareinokunarfyrirtæki. Enn óskiljanlegra er að yfirvöld skyldu heimila innlimun 10/11 búðanna í þetta veldi. Samkeppni var markvisst útrýmt á matvörumarkaðnum eftir að hafa ríkt í nokkur ár, milli Bónusbúðanna og Haugkaups. Eins og við vitum er frjáls samkeppni óbærilegt ástand fyrir kaupmenn. Enginn hagnast á frjálsri samkeppni nema kannski almenningur - og hverjum er ekki sama um hann? Við tók þykjustusamkeppni sem við þekkjum svo vel hjá olíufélögum og símafyrirtækjum þessa lands; Öskjuhlíðarsamkeppni. Og um árabil höfum við búið við samkomulag um að þessi búð sé alltaf með krónu ódýrara en hin búðin um leið og þess hefur verið vandlega gætt að halda matvöruverðinu nægjanlega uppi til að hægt sé að greiða sómasamlegan arð. Fyrir arðinn af því að selja Íslendingum mat virtist á tímabili hægt að kaupa heilu og hálfu heimsborgirnar. Seinna kom að vísu í ljós að til stóð að kaupa heiminn út á krít en það breytir því ekki að gróðinn af því að selja Íslendingum gulrætur og paprikur, pillur, kóka kóla, og seinna hlutabréf í genunum í sjálfum sér, fyllti á tímabili unga menn - sem allir voru vinir - slíkri ofsatrú á sjálfum sér að þeir héldu að þeir kynnu fleiri klæki en nokkur annar kaupsýslumaður í heiminum. Það reyndist ekki svo.Allt hafði annan róm?… Fram að veldisdögum Bónuss og Hagkaups þar á undan höfðu heildsalar og innflytjendur og matvælaframleiðendur að vísu haft kverkatak á kaupmönnum hér á landi. Á haftaárunum störfuðu heildsalarnir með sérleyfi frá Sjálfstæðisflokknum og smáfurstakerfi hans og guldu honum líka sinn skatt í skýlausum trúnaði og beinhörðum peningum. Verð á landbúnaðarvörum var ákveðið af sérstökum nefndum sem gættu í orði kveðnu hagsmuna bænda en þó einkum valda- og einokunarkerfis sem byggt var kringum hitt smáfurstabandalagið sem þjóðin mátti þola, Framsóknarflokkinn. Öll var þessi umsýsla þunglamaleg og þunghent og þjóðinni dýrkeypt en hún gerði þó að verkum að í hverfinu þar sem ég ólst upp, Vogunum í Reykjavík, voru um skeið að minnsta kosti sex verslanir í stuttu göngufæri fyrir lítinn dreng að sendast fyrir mömmu sína, mjólkurbúðir með misjafnlega hvefsnum konum; kjötbúðir með kátum köllum í hvítum og skítugum sloppum og fiskbúðir með fyrrverandi sjómönnum sem voru hálfgalnir af viðþolsleysi að komast aftur út á sjó. Að ógleymdri Teitsjoppu blessaðri þar sem mátti sjá unglingana verða til. Það var mannlíf í kringum þetta allt saman, þetta var ákveðin borgarmenning sem manni finnst stundum eins og fokið hafi út í buskann þegar bílaöldin útrýmdi öllu eins og gróðurinn sem fýkur burt í uppblæstri, og ekkert verður eftir nema grátt malbik, þögul bílastæði og fólkið fokið burt. Vild og vild Hagkaup var uppreisn gegn hinu niðurnjörvaða kerfi og þar tókst með hugkvæmni og vinnusemi - og góðum samböndum - að ná niður verði. Þangað flykktist fólk og þegar fyrirtækið óx og óx upp í ógurlegt veldi var ekki nema eðlilegt að glúrnir feðgar sæju sér leik á borði með nýja hugmynd að lágvöruverslunarkeðju - Bónus. Sú verslun hefur líka sinn sérstaka karakter og var stofnuð vegna þess að það var eyða á markaðnum, og naut líka mikilla vinsælda hjá almenningi, rétt eins og Hagkaup hafði þar á undan. Það var raunveruleg vild. Eftir því sem gervivildin óx í bókhaldinu þvarr hins vegar raunvildin hjá fólkinu. Fólk kaus Bónus unnvörpum með buddunum. Þeir Bónus-feðgar fengu mikið frá íslensku þjóðinni - þeim var trúað fyrir miklu. Þeir keyptu sér snekkjur og hurfu inn í tilbúinn heim. Það er náttúrlega tabú að tala um, en í raun og veru er það svo að íslenskir kaupsýslumenn þola ekki frjálsa samkeppni. Þeir eru friðlausir uns hægt er að stöðva hana. Þegar Hagar voru stofnaðir - og síðar útfærðir frekar - var þess jafnframt gætt að kítta upp í allar glufur á markaðnum. Sú eyða sem Bónus-feðgar höfðu fundið - var vandlega fyllt. Bónus-feðgarnir glúrnu sáu til þess að engir viðlíka hugkvæmir og þeir kæmust inn á markaðinn til að keppa við þá. Sjálfir voru þeir á snekkjunum sínum. Og það fór sem fór. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Gerum betur Hilmar Björnsson Skoðun Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun
Á hlaupum á Akureyri sér maður haft í DV eftir Jóhannesi Jónssyni í Bónus að Hagar séu barnið hans. Og sárt að horfa upp á skiptingu fyrirtækisins. Honum væri nær að fagna því að vera loksins laus við þetta skrýmsli. Óskiljanlegt er að leyft skyldi á sínum tíma að sameina Bónus og Hagkaup í eitt allsherjareinokunarfyrirtæki. Enn óskiljanlegra er að yfirvöld skyldu heimila innlimun 10/11 búðanna í þetta veldi. Samkeppni var markvisst útrýmt á matvörumarkaðnum eftir að hafa ríkt í nokkur ár, milli Bónusbúðanna og Haugkaups. Eins og við vitum er frjáls samkeppni óbærilegt ástand fyrir kaupmenn. Enginn hagnast á frjálsri samkeppni nema kannski almenningur - og hverjum er ekki sama um hann? Við tók þykjustusamkeppni sem við þekkjum svo vel hjá olíufélögum og símafyrirtækjum þessa lands; Öskjuhlíðarsamkeppni. Og um árabil höfum við búið við samkomulag um að þessi búð sé alltaf með krónu ódýrara en hin búðin um leið og þess hefur verið vandlega gætt að halda matvöruverðinu nægjanlega uppi til að hægt sé að greiða sómasamlegan arð. Fyrir arðinn af því að selja Íslendingum mat virtist á tímabili hægt að kaupa heilu og hálfu heimsborgirnar. Seinna kom að vísu í ljós að til stóð að kaupa heiminn út á krít en það breytir því ekki að gróðinn af því að selja Íslendingum gulrætur og paprikur, pillur, kóka kóla, og seinna hlutabréf í genunum í sjálfum sér, fyllti á tímabili unga menn - sem allir voru vinir - slíkri ofsatrú á sjálfum sér að þeir héldu að þeir kynnu fleiri klæki en nokkur annar kaupsýslumaður í heiminum. Það reyndist ekki svo.Allt hafði annan róm?… Fram að veldisdögum Bónuss og Hagkaups þar á undan höfðu heildsalar og innflytjendur og matvælaframleiðendur að vísu haft kverkatak á kaupmönnum hér á landi. Á haftaárunum störfuðu heildsalarnir með sérleyfi frá Sjálfstæðisflokknum og smáfurstakerfi hans og guldu honum líka sinn skatt í skýlausum trúnaði og beinhörðum peningum. Verð á landbúnaðarvörum var ákveðið af sérstökum nefndum sem gættu í orði kveðnu hagsmuna bænda en þó einkum valda- og einokunarkerfis sem byggt var kringum hitt smáfurstabandalagið sem þjóðin mátti þola, Framsóknarflokkinn. Öll var þessi umsýsla þunglamaleg og þunghent og þjóðinni dýrkeypt en hún gerði þó að verkum að í hverfinu þar sem ég ólst upp, Vogunum í Reykjavík, voru um skeið að minnsta kosti sex verslanir í stuttu göngufæri fyrir lítinn dreng að sendast fyrir mömmu sína, mjólkurbúðir með misjafnlega hvefsnum konum; kjötbúðir með kátum köllum í hvítum og skítugum sloppum og fiskbúðir með fyrrverandi sjómönnum sem voru hálfgalnir af viðþolsleysi að komast aftur út á sjó. Að ógleymdri Teitsjoppu blessaðri þar sem mátti sjá unglingana verða til. Það var mannlíf í kringum þetta allt saman, þetta var ákveðin borgarmenning sem manni finnst stundum eins og fokið hafi út í buskann þegar bílaöldin útrýmdi öllu eins og gróðurinn sem fýkur burt í uppblæstri, og ekkert verður eftir nema grátt malbik, þögul bílastæði og fólkið fokið burt. Vild og vild Hagkaup var uppreisn gegn hinu niðurnjörvaða kerfi og þar tókst með hugkvæmni og vinnusemi - og góðum samböndum - að ná niður verði. Þangað flykktist fólk og þegar fyrirtækið óx og óx upp í ógurlegt veldi var ekki nema eðlilegt að glúrnir feðgar sæju sér leik á borði með nýja hugmynd að lágvöruverslunarkeðju - Bónus. Sú verslun hefur líka sinn sérstaka karakter og var stofnuð vegna þess að það var eyða á markaðnum, og naut líka mikilla vinsælda hjá almenningi, rétt eins og Hagkaup hafði þar á undan. Það var raunveruleg vild. Eftir því sem gervivildin óx í bókhaldinu þvarr hins vegar raunvildin hjá fólkinu. Fólk kaus Bónus unnvörpum með buddunum. Þeir Bónus-feðgar fengu mikið frá íslensku þjóðinni - þeim var trúað fyrir miklu. Þeir keyptu sér snekkjur og hurfu inn í tilbúinn heim. Það er náttúrlega tabú að tala um, en í raun og veru er það svo að íslenskir kaupsýslumenn þola ekki frjálsa samkeppni. Þeir eru friðlausir uns hægt er að stöðva hana. Þegar Hagar voru stofnaðir - og síðar útfærðir frekar - var þess jafnframt gætt að kítta upp í allar glufur á markaðnum. Sú eyða sem Bónus-feðgar höfðu fundið - var vandlega fyllt. Bónus-feðgarnir glúrnu sáu til þess að engir viðlíka hugkvæmir og þeir kæmust inn á markaðinn til að keppa við þá. Sjálfir voru þeir á snekkjunum sínum. Og það fór sem fór.
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun