Barónessan Einar Már Jónsson skrifar 3. mars 2010 06:00 Ekki var laust við að Frakkar móðguðust fyrir sína hönd og Zapateros, forsætisráðherra Spánar, þegar tilkynnt var að Barack Obama Bandaríkjaforseti ætlaði að heiðra einhverja mikla Evrópumessu í Madrid í vor með fjarveru sinni. Þessi samkunda átti að vera fundur æðstu ráðamanna Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins til að ræða brýnustu heimsmál, og hafði Zapatero lagt allt kapp á að búa sig undir að taka á móti stórmenninu, en nú verður hann væntanlega að láta sér lynda að fá einhverjar undirtyllur í staðinn. Til að reyna að bera höfuðið hátt lýsti hann því yfir að Obama hefði mikið að gera og væri þess vegna bundinn annars staðar. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsetinn sniðgengur Evrópumenn; er mönnum í fersku minni að hann þáði ekki boð Angelu Merkel í haust að vera viðstaddur þegar þess var minnst að tuttugu ár voru liðin síðan Berlínarmúrinn féll. Þetta er reyndar gömul hefð í Bandaríkjunum, og minnast menn stundum orða Kissingers, þegar hann var utanríkisráðherra: „Evrópa, hvað er það? Það er ekki einu sinni símanúmer." Þetta hafa menn gjarnan útskýrt með því að Evrópa hafi þá ekki verið nógu sameinuð, það hafi sárlega vantað einhvern „utanríkisráðherra" sem gæti komið fram fyrir hönd sambandsríkjanna, tvíhent símtólið og sagt meiningu sína umbúðalaust svo aðrir yrðu að beygja sig. Hefði það ekki verið munur ef stjórnarskrá Evrópu hefði verið komin í gildi þegar Íraksstríðið hófst? spyrja menn stundum, þá hefði utanríkisráðherrann heldur en ekki staðið uppi í hárinu á skúrkinum Bush og látið hann fá það óþvegið. Að vísu hugsa menn þessa hugsun aldrei til enda, því eins og staðan var þá í álfunni er langlíklegast að sá utanríkisráðherra hefði auðmjúklegast gengið til stuðnings við Bandaríkjamenn, kannske boðist til að senda einhverjar „Evrópuhersveitir" til Íraks, og því hefði franskur almenningur naumast tekið þegjandi og hljóðalaust. Nú var „stjórnarskrá" Evrópu að vísu felld í þjóðaratkvæðagreiðslum, en í staðinn kom hinn svokallaði „Lissabonn-samningur" sem er alveg eins, og því er nú loksins búið að stofna embætti „utanríkisráðherra" sambandsins. Þegar það var í undirbúningi veltu menn því fyrir sér hvaða stórmenni gæti skipað þennan virðulega sess, og voru ýmsir nefndir, en svo var það bresk barónessa sem varð fyrir valinu, öllum að óvörum og sennilega fyrst og fremst henni sjálfri; hún varð víst alveg steini lostin. Þessi kona, sem nefnist Cathrine Ashton af Upphollandi, var þá alveg óþekkt og nú þegar nokkrir mánuðir eru liðin frá því að hún var útnefnd er hún það enn. Samkvæmt enskri bókmenntahefð væri hægt að kalla hana „ósýnilegu konuna". Reyndar vantar ekki að um hana sé skrifað í frönskum blöðum, en þar er einkum rakið hvað hún hafi ekki gert, ekki hvað hún kunni að hafa afrekað. Hún hefur t.d. ekki tekið í mál að flytja til Brussel, heldur býr þar í hótelherbergjum og er jafnan með annan fótinn í London. Þegar jarðskjálftinn mikli varð í Haítí og Hillary Clinton var fljót á vettvang til að kynna sér ástandið og hughreysta hrjáða landsmenn fór barónessan beint heim í helgarfrí til fjölskyldunnar í Englandi, og sagði að svona túrismi, sem sé til landa sem eru hjálpar þurfi, væri óþarfi. Og þó er aðstoð Evrópumanna við Haítíbúa mun meiri en það sem Bandaríkjamenn leggja af mörkunum. Um síðir varð barónessan þó að halda blaðamannafund um málið, en vegna vanþekkingar var hún svo ruglingsleg í tali að utanríkisráðherra Spánar varð að taka orðið af henni. Og hann útskýrði stöðuna á þremur tungumálum, en barónessan er hins vegar einungis mælt á ensku. Hún svarar hins vegar í síma, að því leyti er hún yfir alla gagnrýni hafin, en ekki eftir kl. átta á kvöldin, né heldur á helgidögum, og hún mun hafa lýst því yfir að hún ætli ekki að leggjast í ferðalög. Barack Obama mun ekki hafa tjáð sig um það hvers vegna hann ætli ekki að koma til Madrid í vor. En einhverjir samstarfsmenn hans, sem vilja ekki láta nafns síns getið, hafa hins vegar sagt að þessar Evrópumessur séu tímaeyðsla, þar sé ekki talað um neitt sem máli skipti heldur einungis um „klór-kjúklinga" og annað álíka, Evrópumenn séu auk þess fáfróðir um helstu vandamál heims, og í staðinn fyrir að koma fram sameinaðir reyni hver að ota sínum tota og mynda einhver prívat og persónuleg tengsl við Bandaríkjaforseta, utan við allt Evrópusamband. Kannske er þetta skýringin á því að þegar velja átti „utanríkisráðherra" skuli þeir hafa leitað uppi þá litlausustu persónu sem völ var á, einhverja sem tryggt var að myndi aldrei skyggja á neina ráðherra hinna einstöku þjóða sambandsins og aldrei láta neitt til sín taka. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Í skugga misvægis atkvæðanna Örn Sigurðsson Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Er samþykki barna túlkunaratriði? Ólöf Tara Harðardóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór
Ekki var laust við að Frakkar móðguðust fyrir sína hönd og Zapateros, forsætisráðherra Spánar, þegar tilkynnt var að Barack Obama Bandaríkjaforseti ætlaði að heiðra einhverja mikla Evrópumessu í Madrid í vor með fjarveru sinni. Þessi samkunda átti að vera fundur æðstu ráðamanna Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins til að ræða brýnustu heimsmál, og hafði Zapatero lagt allt kapp á að búa sig undir að taka á móti stórmenninu, en nú verður hann væntanlega að láta sér lynda að fá einhverjar undirtyllur í staðinn. Til að reyna að bera höfuðið hátt lýsti hann því yfir að Obama hefði mikið að gera og væri þess vegna bundinn annars staðar. En þetta er ekki í fyrsta skipti sem forsetinn sniðgengur Evrópumenn; er mönnum í fersku minni að hann þáði ekki boð Angelu Merkel í haust að vera viðstaddur þegar þess var minnst að tuttugu ár voru liðin síðan Berlínarmúrinn féll. Þetta er reyndar gömul hefð í Bandaríkjunum, og minnast menn stundum orða Kissingers, þegar hann var utanríkisráðherra: „Evrópa, hvað er það? Það er ekki einu sinni símanúmer." Þetta hafa menn gjarnan útskýrt með því að Evrópa hafi þá ekki verið nógu sameinuð, það hafi sárlega vantað einhvern „utanríkisráðherra" sem gæti komið fram fyrir hönd sambandsríkjanna, tvíhent símtólið og sagt meiningu sína umbúðalaust svo aðrir yrðu að beygja sig. Hefði það ekki verið munur ef stjórnarskrá Evrópu hefði verið komin í gildi þegar Íraksstríðið hófst? spyrja menn stundum, þá hefði utanríkisráðherrann heldur en ekki staðið uppi í hárinu á skúrkinum Bush og látið hann fá það óþvegið. Að vísu hugsa menn þessa hugsun aldrei til enda, því eins og staðan var þá í álfunni er langlíklegast að sá utanríkisráðherra hefði auðmjúklegast gengið til stuðnings við Bandaríkjamenn, kannske boðist til að senda einhverjar „Evrópuhersveitir" til Íraks, og því hefði franskur almenningur naumast tekið þegjandi og hljóðalaust. Nú var „stjórnarskrá" Evrópu að vísu felld í þjóðaratkvæðagreiðslum, en í staðinn kom hinn svokallaði „Lissabonn-samningur" sem er alveg eins, og því er nú loksins búið að stofna embætti „utanríkisráðherra" sambandsins. Þegar það var í undirbúningi veltu menn því fyrir sér hvaða stórmenni gæti skipað þennan virðulega sess, og voru ýmsir nefndir, en svo var það bresk barónessa sem varð fyrir valinu, öllum að óvörum og sennilega fyrst og fremst henni sjálfri; hún varð víst alveg steini lostin. Þessi kona, sem nefnist Cathrine Ashton af Upphollandi, var þá alveg óþekkt og nú þegar nokkrir mánuðir eru liðin frá því að hún var útnefnd er hún það enn. Samkvæmt enskri bókmenntahefð væri hægt að kalla hana „ósýnilegu konuna". Reyndar vantar ekki að um hana sé skrifað í frönskum blöðum, en þar er einkum rakið hvað hún hafi ekki gert, ekki hvað hún kunni að hafa afrekað. Hún hefur t.d. ekki tekið í mál að flytja til Brussel, heldur býr þar í hótelherbergjum og er jafnan með annan fótinn í London. Þegar jarðskjálftinn mikli varð í Haítí og Hillary Clinton var fljót á vettvang til að kynna sér ástandið og hughreysta hrjáða landsmenn fór barónessan beint heim í helgarfrí til fjölskyldunnar í Englandi, og sagði að svona túrismi, sem sé til landa sem eru hjálpar þurfi, væri óþarfi. Og þó er aðstoð Evrópumanna við Haítíbúa mun meiri en það sem Bandaríkjamenn leggja af mörkunum. Um síðir varð barónessan þó að halda blaðamannafund um málið, en vegna vanþekkingar var hún svo ruglingsleg í tali að utanríkisráðherra Spánar varð að taka orðið af henni. Og hann útskýrði stöðuna á þremur tungumálum, en barónessan er hins vegar einungis mælt á ensku. Hún svarar hins vegar í síma, að því leyti er hún yfir alla gagnrýni hafin, en ekki eftir kl. átta á kvöldin, né heldur á helgidögum, og hún mun hafa lýst því yfir að hún ætli ekki að leggjast í ferðalög. Barack Obama mun ekki hafa tjáð sig um það hvers vegna hann ætli ekki að koma til Madrid í vor. En einhverjir samstarfsmenn hans, sem vilja ekki láta nafns síns getið, hafa hins vegar sagt að þessar Evrópumessur séu tímaeyðsla, þar sé ekki talað um neitt sem máli skipti heldur einungis um „klór-kjúklinga" og annað álíka, Evrópumenn séu auk þess fáfróðir um helstu vandamál heims, og í staðinn fyrir að koma fram sameinaðir reyni hver að ota sínum tota og mynda einhver prívat og persónuleg tengsl við Bandaríkjaforseta, utan við allt Evrópusamband. Kannske er þetta skýringin á því að þegar velja átti „utanríkisráðherra" skuli þeir hafa leitað uppi þá litlausustu persónu sem völ var á, einhverja sem tryggt var að myndi aldrei skyggja á neina ráðherra hinna einstöku þjóða sambandsins og aldrei láta neitt til sín taka.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun