Körfubolti

Botnlið ÍR vann óvæntan sigur á Hamar í Seljaskóla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Sverrisson, stýrði ÍR-ingum til sigurs á Hamar í kvöld.
Gunnar Sverrisson, stýrði ÍR-ingum til sigurs á Hamar í kvöld.

Botnlið ÍR-inga kom á óvart í kvöld með fimm stiga sigri á Hamar, 89-84, í 9. umferð Iceland Express deildar karla í Seljaskólanum í kvöld. ÍR var náði 20 stiga forskot fimm mínútum fyrir leikslok en Hamar var nálægt því að vinna muninn upp á síðustu fjórum mínútum leiksins.

ÍR-ingar enduðu fjögurra leikja taphrinu með þessum sigri en liðið var aðeins búið að vinna einn af fyrstu átta leikjum sínum í deildinni. Hamar átti þarna möguleika að vinna sinn þriðja leik í röð og komast í hóp efstu liða í deildinni.

Kelly Bidler var í aðalhlutverki hjá ÍR í kvöld með 24 stig og 17 fráköst, Eiríkur Önundarson skoraði 18 stig og Nemanja Sovic var með 15 stig. Sveinbjörn Claessen spilaði fyrsta leikinn með ÍR á tímabilinu og setti niður tvö mikilvæg víti á lokasekúndunum.

Darri Hilmarsson var með 23 stig og 14 fráköst hjá Hamar, Andre Dabney skroaði 19 stig og Ellert Arnarson var með 16 stig og 10 stoðsendingar.

ÍR byrjaði betur og sex stigum yfir, 27-21, eftir fyrsta leikhlutann. Hamarsmenn náðu hinsvegar að snúa við blaðinu í öðrum leikhluta og voru komnir tveimur stigum yfir í hálfleik, 44-42. Ellert Arnarson og Darri Hilmarsson voru með 23 stig stig saman í fyrri hálfleiknum.

ÍR-ingar skoruðu 7 fyrstu stig seinni hálfleiks, komust í 49-44 og voru síðan með 16 stiga forskot, 69-53, fyrir lokaleikhlutann.

ÍR náði mest 20 stiga forskoti, 86-66, fimm mínútum fyrir leikslok en Hamar náði að minnka muninn niður í 87-84 áður en Sveinbjörn Claessen tryggði sigur ÍR með því að setja niður tvö víti á úslitastundu.

 

ÍR-Hamar 89-84 (42-44)



Stig ÍR: Kelly  Biedler 24/17 fráköst/3 varin skot, Eiríkur Önundarson 18, Nemanja Sovic 15/5 fráköst, Níels Dungal 12/5 fráköst, Sveinbjörn Claesson 5, Davíð Þór Fritzson 5, Ásgeir Örn Hlöðversson 4, Hjalti Friðriksson 3/4 fráköst, Matic Ribic 2, Kristinn Jónasson 1

Stig Hamars: Darri Hilmarsson 23/14 fráköst, Andre Dabney 19/6 fráköst, Ellert Arnarson 16/5 fráköst/10 stoðsendingar, Kjartan Kárason 11, Snorri Þorvaldsson 4, Svavar Páll Pálsson 4/7 fráköst, Hilmar Guðjónsson 3, Ragnar Á. Nathanaelsson 2/3 varin skot, Nerijus Taraskus 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×