Hvenær var ekki við snúið? Þorsteinn Pálsson skrifar 17. apríl 2010 06:00 Umræður um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis bera þess eðlilega merki að hún hafði ekki að geyma ný sannindi um orsakir fyrir hruni krónunnar og bankanna. Á hinn bóginn skýrir skýrslan býsna vel samhengi og baksvið þess sem gerðist. Mikill fengur er að þeirri heildarmynd sem skýrslan gefur um ofvöxt í bankakerfinu sem á síðustu stigum leiddi til glapræðisverka bankastjórnenda. Greinargerð starfshópsins sem fjallaði um siðferðilega hlið þessara atburða er einkar skilmerkileg og mikilvæg undirstaða umræðu næstu ára og áratuga um endurreisn samfélagsins. Segja má að athyglisverðustu niðurstöður á hagfræðilegri hlið málinsins séu þær að í raun réttri var hrunið óumflýjanlegt eftir 2006. Eftir þann tíma hefðu nær allar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnar, Seðlabanka og fjármálaeftirlits leitt til þess eins að flýta falli bankanna. Það er helst að styrking gjaldeyrisvarasjóðsins hefði á þessum tíma komið að haldi. Margt bendir þó til að þegar komið var fram á árið 2008 hafi það einnig verið orðið of seint. Vandamálin hlóðust upp á árunum fram til 2004 eða 2005. Vandinn er hins vegar sá að fyrir þann tíma er erfitt að skilgreina einhvern einn atburð sem þau vatnaskil að ekki varð til baka snúið án hamfara. Í þessu ljósi er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að dómur nefndarinnar um vanrækslu nokkurra ráðherra og embættismanna frá 2006 til 2008 þarfnist nánari rökstuðnings. Þó að ekki sé gerður ágreiningur um það sem betur mátti fara í þessum tilvikum er eigi að síður ljóst að nefndin skýrir ekki orsakasamhengi milli tiltekinna athafna eða athafnaleysis þeirra sem hlut eiga að máli og falls bankanna. Jafn mikilvægar og þessar athugasemdir eru við endurbætur á stjórnsýslunni eru þær að sama skapi veikur grunnur fyrir viðurlög hvort heldur horft er á ráðherraábyrgðarlögin eða lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.Skýringa er þörf og kerfisveikleikar Athugasemdir af ýmsu tagi voru gerðar um hæfi nefndarmanna. Nefndin víkur þeim til hliðar með einfaldari röksemdum en núorðið tíðkast bæði að því er varðar dómstóla og stjórnsýslu. Hér er því þörf nánari skýringa. Þá virðist nefndin leggja aðra og rýmri merkingu í hugtakið vanræksla en hefð er fyrir í dómaframkvæmd. Nú geta verið góð og gild rök til þess einkum vegna þess að hér var ekki um sakamálarannsókn að ræða. Það getur því aukið aðhald í stjórnsýslu ef þessi þrengri merking verður lögð til grundvallar þeim endurbótum á formi og efnislegu innihaldi stjórnsýsluathafna sem koma í kjölfarið. Á hinn bóginn veikir það notkun á þeim efnisniðurstöðum skýrslunnar þar sem stuðst er við þessa breyttu merkingu ætli menn að nota hana til umfjöllunar um viðurlög vegna liðinna atburða. Þessu hefði mátt gera betri grein fyrir. Í áratugi hafa margar pólitískar ákvarðanir ekki verið nægjanlega formbundnar. Eftir að ráðherrum var fjölgað í tólf hafa raunveruleg ráð verið á höndum tveggja til fjögurra ráðherra. Átta til tíu ráðherrar hafa í raun ekki haft meiri pólitísk áhrif en nefndarformenn í þingi áður fyrr. Löng hefð er fyrir því að stærstu pólitísku ákvarðanirnar eru sökum þessa teknar utan ríkisstjórnarfunda. Rétt er að þessu þarf að breyta. Hæpið er hins vegar að telja einum manni til vanrækslu að hafa ekki brotið upp þessa gömlu venju. Það er heldur ekkert orsakasamhengi milli hennar og bankahrunsins. Eftir mannréttindasáttmála Evrópu verða allir að eiga þess kost að mál þeirra sé tekið fyrir á tveimur dómstigum. Landsdómur uppfyllir ekki þetta skilyrði. Hann er því ónothæfur. Þess vegna voru í stjórnarskrárnefnd gerða tillögur um breytta skipan. Öll frekari umræða hlýtur að taka mið af þessari köldu en skýru staðreynd.Umræðan og forsetinn Skýrslan og álit siðfræðistarfshópsins leggja góðan grunn að vandaðri og yfirvegaðri umræðu en verið hefur fram til þessa bæði um gjaldmiðilshrunið og bankahrunið. Fyrir þá sök vekur athygli að pólitíska umfjöllunin um skýrsluna fer að stórum hluta fram í gömlum skotgröfum eins og ekki sé komin ný viðspyrna. Í þessu efni þarf að gera ríkar kröfur til bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Eðli máls samkvæmt er það þó ríkisstjórnin sem hefur þá skyldu að leiða umræðuna að nýrri framtíðarsýn. Í þessu ljósi ollu fyrstu viðbrögð forsætisráðherra nokkrum vonbrigðum. Ein helsta niðurstaða siðfræðistarfshópsins var sú að forseti Íslands hefði lagst á sveif með þeim sem léku fyrstu fiðlu í sinfóníu siðferðisbrestsins. Forsetinn er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Fyrir þá sök þarf ríkisstjórnin að taka í taumana og setja embættinu skýr mörk í samræmi við þá ábyrgð sem ráðherrar bera á störfum hans eftir stjórnarskránni. Fjármálaráðherra beindi athyglinni réttilega að þessum vanda. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Landsdómur Vinsælast 2010 Mest lesið Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Umræður um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis bera þess eðlilega merki að hún hafði ekki að geyma ný sannindi um orsakir fyrir hruni krónunnar og bankanna. Á hinn bóginn skýrir skýrslan býsna vel samhengi og baksvið þess sem gerðist. Mikill fengur er að þeirri heildarmynd sem skýrslan gefur um ofvöxt í bankakerfinu sem á síðustu stigum leiddi til glapræðisverka bankastjórnenda. Greinargerð starfshópsins sem fjallaði um siðferðilega hlið þessara atburða er einkar skilmerkileg og mikilvæg undirstaða umræðu næstu ára og áratuga um endurreisn samfélagsins. Segja má að athyglisverðustu niðurstöður á hagfræðilegri hlið málinsins séu þær að í raun réttri var hrunið óumflýjanlegt eftir 2006. Eftir þann tíma hefðu nær allar aðgerðir af hálfu ríkisstjórnar, Seðlabanka og fjármálaeftirlits leitt til þess eins að flýta falli bankanna. Það er helst að styrking gjaldeyrisvarasjóðsins hefði á þessum tíma komið að haldi. Margt bendir þó til að þegar komið var fram á árið 2008 hafi það einnig verið orðið of seint. Vandamálin hlóðust upp á árunum fram til 2004 eða 2005. Vandinn er hins vegar sá að fyrir þann tíma er erfitt að skilgreina einhvern einn atburð sem þau vatnaskil að ekki varð til baka snúið án hamfara. Í þessu ljósi er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að dómur nefndarinnar um vanrækslu nokkurra ráðherra og embættismanna frá 2006 til 2008 þarfnist nánari rökstuðnings. Þó að ekki sé gerður ágreiningur um það sem betur mátti fara í þessum tilvikum er eigi að síður ljóst að nefndin skýrir ekki orsakasamhengi milli tiltekinna athafna eða athafnaleysis þeirra sem hlut eiga að máli og falls bankanna. Jafn mikilvægar og þessar athugasemdir eru við endurbætur á stjórnsýslunni eru þær að sama skapi veikur grunnur fyrir viðurlög hvort heldur horft er á ráðherraábyrgðarlögin eða lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.Skýringa er þörf og kerfisveikleikar Athugasemdir af ýmsu tagi voru gerðar um hæfi nefndarmanna. Nefndin víkur þeim til hliðar með einfaldari röksemdum en núorðið tíðkast bæði að því er varðar dómstóla og stjórnsýslu. Hér er því þörf nánari skýringa. Þá virðist nefndin leggja aðra og rýmri merkingu í hugtakið vanræksla en hefð er fyrir í dómaframkvæmd. Nú geta verið góð og gild rök til þess einkum vegna þess að hér var ekki um sakamálarannsókn að ræða. Það getur því aukið aðhald í stjórnsýslu ef þessi þrengri merking verður lögð til grundvallar þeim endurbótum á formi og efnislegu innihaldi stjórnsýsluathafna sem koma í kjölfarið. Á hinn bóginn veikir það notkun á þeim efnisniðurstöðum skýrslunnar þar sem stuðst er við þessa breyttu merkingu ætli menn að nota hana til umfjöllunar um viðurlög vegna liðinna atburða. Þessu hefði mátt gera betri grein fyrir. Í áratugi hafa margar pólitískar ákvarðanir ekki verið nægjanlega formbundnar. Eftir að ráðherrum var fjölgað í tólf hafa raunveruleg ráð verið á höndum tveggja til fjögurra ráðherra. Átta til tíu ráðherrar hafa í raun ekki haft meiri pólitísk áhrif en nefndarformenn í þingi áður fyrr. Löng hefð er fyrir því að stærstu pólitísku ákvarðanirnar eru sökum þessa teknar utan ríkisstjórnarfunda. Rétt er að þessu þarf að breyta. Hæpið er hins vegar að telja einum manni til vanrækslu að hafa ekki brotið upp þessa gömlu venju. Það er heldur ekkert orsakasamhengi milli hennar og bankahrunsins. Eftir mannréttindasáttmála Evrópu verða allir að eiga þess kost að mál þeirra sé tekið fyrir á tveimur dómstigum. Landsdómur uppfyllir ekki þetta skilyrði. Hann er því ónothæfur. Þess vegna voru í stjórnarskrárnefnd gerða tillögur um breytta skipan. Öll frekari umræða hlýtur að taka mið af þessari köldu en skýru staðreynd.Umræðan og forsetinn Skýrslan og álit siðfræðistarfshópsins leggja góðan grunn að vandaðri og yfirvegaðri umræðu en verið hefur fram til þessa bæði um gjaldmiðilshrunið og bankahrunið. Fyrir þá sök vekur athygli að pólitíska umfjöllunin um skýrsluna fer að stórum hluta fram í gömlum skotgröfum eins og ekki sé komin ný viðspyrna. Í þessu efni þarf að gera ríkar kröfur til bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Eðli máls samkvæmt er það þó ríkisstjórnin sem hefur þá skyldu að leiða umræðuna að nýrri framtíðarsýn. Í þessu ljósi ollu fyrstu viðbrögð forsætisráðherra nokkrum vonbrigðum. Ein helsta niðurstaða siðfræðistarfshópsins var sú að forseti Íslands hefði lagst á sveif með þeim sem léku fyrstu fiðlu í sinfóníu siðferðisbrestsins. Forsetinn er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Fyrir þá sök þarf ríkisstjórnin að taka í taumana og setja embættinu skýr mörk í samræmi við þá ábyrgð sem ráðherrar bera á störfum hans eftir stjórnarskránni. Fjármálaráðherra beindi athyglinni réttilega að þessum vanda.
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun