Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, er ekki hrifinn af ástandi vallarins á Santiago Bernabeu í Madrídarborg.
Liðið vann þar í gær 3-0 sigur á Espanyol og hann var ánægður með leikinn, sérstaklega þar sem hann fór fram við erfiðar aðstæður.
„Í ljósi aðstæða er ég ánægður því það er ekki auðvelt að spila í kartöflugarði. Það er þar að auki lítill tími fyrir leikmenn að jafna sig á milli leikja og að spila við andstæðing sem hefur engu að tapa," er haft eftir Mourinho í spænskum fjölmiðlum.
Hann segir einnig að á Spáni séu allir þjálfarar. „Ég fæddist í landi þar sem eru tíu milljónir þjálfara. En nú vinn ég í landi þar sem það eru 40 milljónir þjálfara. En raunveruleikinn er þessi: Real Madrid er aðeins með einn þjálfara og aðeins einn sem getur tekið ákvarðanir. Liðið mitt var þreytt, mjög þétt fyrir og við það að missa stjórn á leiknum. Upp úr því gerði ég breytingar."
Mourinho: Santiago Bernabeu eins og kartöflugarður
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
