Misheppnun Einar Már Jónsson skrifar 25. janúar 2010 06:00 Járnlafðin á einhverju sinni að hafa sagt af sinni alkunnri góðmennsku, að hver sá maður sem sé að nálgast þrítugsaldur og fari til vinnu sinnar í almenningsvagni - en ekki í einhverri tryllikerru sem kostar morð fjár - sé í hennar augum „misheppnaður". Á Íslandi, þar sem stjórnvöld hafa nú áratugum saman reynt með góðum árangri að venja fólk af þeim ósið að nota almenningsvagna, hlýtur viðmiðunin að sjálfsögðu að vera með öðrum hætti, og í þá átt gengur þróunin sennilega líka annars staðar. Um þetta hafði ég nokkurt tóm til að hugsa nýlega þegar ég flaug frá París til Keflavíkur. Samkvæmt gamalli reynslu tók ég þann kostinn að koma tímanlega á flugvöllinn, og reyndist það skynsamlegt. Fyrsta biðröðin var þegar löng og mjakaðist hægt áfram, enda skoðaði sá sem var við innritunina allan handfarangur gaumgæfilega, hann spurði um innihaldið, hvort menn hefðu þetta eða hitt sem hann þuldi upp með vélrænni röddu, og vigtaði síðan handtöskuna, því nú var komið upp stórt skilti þar sem tekið var fram að sá farangur mætti ekki vera yfir tíu kíló. Ef taskan reyndist þyngri rak hann menn stundum til taka eitthvað úr henni. Mér hætti að lítast á blikuna, því ég var með sitthvað sem ég vildi ekki sleppa úr augsýn og það seig nokkuð í. Þegar til kastanna kom greip ég því til gamals ráðs, sem gott er að þekkja, ég spurði áhyggjusamlega um eitthvert lítilræði: mætti ég örugglega hafa það meðferðis? Afgreiðslumaðurinn velti vöngum um stund, greinilega dauðhræddur við að þurfa að gefa eitthvert ákveðið svar, og sagði svo með semingi „já, sennilega", eins og ég bjóst við. En fyrir bragðið gleymdi hann að vigta töskuna sem var allavega vel yfir hámarksþyngd. En svo tók ekki betra við. Fyrir framan „vopnaleitina" var önnur biðröð, sem var lengri en ég hafði nokkru sinni áður séð, og hún hreyfðist varla. Einn klukkutími leið, ég var loks kominn svo nálægt hliðinu að ég gat lesið skilti sem á var letrað allstórum stöfum að í biðsalnum fyrir innan „vopnaleitina" væri ekkert salerni að finna, en þá heyrðust allt í einu hróp og formælingar á annarlegu tungumáli. Eftir það stöðvaðist röðin góða stund. Ég innti eftir því hvað væri á seyði og fékk þau svör að einhverjir sem voru líklega að missa af flugvél hefðu reynt að troða sér áfram og þá hefði konan sem stjórnaði „vopnaleitinni" - en það var ekki nema ein gegnumlýsingavél og eitt hlið fyrir farþega í margar flugvélar - ákveðið að stöðva allt saman þangað til lögreglan væri komin á vettvang. Svo birtust tveir stæðilegir laganna verðir með alvæpni og þá fór röðin aftur af stað, jafnhægt og áður. En menn urðu sífellt órólegri. Eftir rúmlega klukkutíma og vel það, var ég loksins kominn að leitarvélinni og hliðinu, þar sem geðstirðir verðir fyrirskipuðu ungum konum jafnt sem öldruðum að draga af sér belti og skó. Sumar þeirra mótmæltu allhneykslaðar, og ein sagði: „Var það eitthvað fleira fyrir yður?" En þeim var ekki sýnd nein miskunn. Þrátt fyrir allt þetta klingdi rafeindabjallan öðru hverju og hlupu þá verðir til í óðagoti og með krumlurnar á lofti. Mér tókst að komast klakklaust gegnum alla þessa leit, og var þá loksins kominn inn í þennan salernislausa biðsal, sem var troðfullur af farþegum á leiðinni hingað og þangað um alla heimsbyggðina, því miklar truflanir virtust vera á flugi þennan dag. Og þar fékk ég umsvifalaust þau tíðindi án frekari skýringa að fluginu til Keflavíkur myndi seinka um þrjár klukkustundir. En ég var ekki einn í þeirri stöðu og ekki verst settur, því einhverri flugvél til Madrid hafði seinkað um sólarhring; hún átti að vísu að fara að leggja af stað, en Spánverjarnir sungu ámátlega. Mér tókst með naumindum að finna sæti þar sem ég gat hreiðrað um mig, og ég velti því fyrir mér hvers konar hryðjuverkastarfsemi yfirvöld væru farin að óttast á salernum, fyrst þau væru hvergi til staðar í þessum þéttsetna biðsal, þar sem enginn gat vitað hvenær hann slyppi úr eftir að hann var einu sinni kominn inn. Þegar ég var sestur fór ég að fylgjast með öðrum farþegum, og heyrði þá á tal tveggja aldraðra kvenna sem voru að setja aftur á sig beltin með handbragði sem hefði gefið í skyn þetta og hitt við aðrar kringumstæður. „Fyrir fáum árum hefði enginn látið bjóða sér þetta," sagði önnur. Svar hinnar heyrði ég ekki, en nú var ég ekki lengur í neinum vafa um hið rökrétta samhengi: með þessu móti var sem sé verið að refsa mönnum fyrir að vera svo misheppnaðir að hafa ekki einkaþotu til að skutlast á milli landa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Er samþykki barna túlkunaratriði? Ólöf Tara Harðardóttir Skoðun Skýr sýn og metnaður Hákon Stefánsson Skoðun Allir geta drukknað en enginn þarf að drukkna Hildur Vattnes Kristjánsdóttir Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun
Járnlafðin á einhverju sinni að hafa sagt af sinni alkunnri góðmennsku, að hver sá maður sem sé að nálgast þrítugsaldur og fari til vinnu sinnar í almenningsvagni - en ekki í einhverri tryllikerru sem kostar morð fjár - sé í hennar augum „misheppnaður". Á Íslandi, þar sem stjórnvöld hafa nú áratugum saman reynt með góðum árangri að venja fólk af þeim ósið að nota almenningsvagna, hlýtur viðmiðunin að sjálfsögðu að vera með öðrum hætti, og í þá átt gengur þróunin sennilega líka annars staðar. Um þetta hafði ég nokkurt tóm til að hugsa nýlega þegar ég flaug frá París til Keflavíkur. Samkvæmt gamalli reynslu tók ég þann kostinn að koma tímanlega á flugvöllinn, og reyndist það skynsamlegt. Fyrsta biðröðin var þegar löng og mjakaðist hægt áfram, enda skoðaði sá sem var við innritunina allan handfarangur gaumgæfilega, hann spurði um innihaldið, hvort menn hefðu þetta eða hitt sem hann þuldi upp með vélrænni röddu, og vigtaði síðan handtöskuna, því nú var komið upp stórt skilti þar sem tekið var fram að sá farangur mætti ekki vera yfir tíu kíló. Ef taskan reyndist þyngri rak hann menn stundum til taka eitthvað úr henni. Mér hætti að lítast á blikuna, því ég var með sitthvað sem ég vildi ekki sleppa úr augsýn og það seig nokkuð í. Þegar til kastanna kom greip ég því til gamals ráðs, sem gott er að þekkja, ég spurði áhyggjusamlega um eitthvert lítilræði: mætti ég örugglega hafa það meðferðis? Afgreiðslumaðurinn velti vöngum um stund, greinilega dauðhræddur við að þurfa að gefa eitthvert ákveðið svar, og sagði svo með semingi „já, sennilega", eins og ég bjóst við. En fyrir bragðið gleymdi hann að vigta töskuna sem var allavega vel yfir hámarksþyngd. En svo tók ekki betra við. Fyrir framan „vopnaleitina" var önnur biðröð, sem var lengri en ég hafði nokkru sinni áður séð, og hún hreyfðist varla. Einn klukkutími leið, ég var loks kominn svo nálægt hliðinu að ég gat lesið skilti sem á var letrað allstórum stöfum að í biðsalnum fyrir innan „vopnaleitina" væri ekkert salerni að finna, en þá heyrðust allt í einu hróp og formælingar á annarlegu tungumáli. Eftir það stöðvaðist röðin góða stund. Ég innti eftir því hvað væri á seyði og fékk þau svör að einhverjir sem voru líklega að missa af flugvél hefðu reynt að troða sér áfram og þá hefði konan sem stjórnaði „vopnaleitinni" - en það var ekki nema ein gegnumlýsingavél og eitt hlið fyrir farþega í margar flugvélar - ákveðið að stöðva allt saman þangað til lögreglan væri komin á vettvang. Svo birtust tveir stæðilegir laganna verðir með alvæpni og þá fór röðin aftur af stað, jafnhægt og áður. En menn urðu sífellt órólegri. Eftir rúmlega klukkutíma og vel það, var ég loksins kominn að leitarvélinni og hliðinu, þar sem geðstirðir verðir fyrirskipuðu ungum konum jafnt sem öldruðum að draga af sér belti og skó. Sumar þeirra mótmæltu allhneykslaðar, og ein sagði: „Var það eitthvað fleira fyrir yður?" En þeim var ekki sýnd nein miskunn. Þrátt fyrir allt þetta klingdi rafeindabjallan öðru hverju og hlupu þá verðir til í óðagoti og með krumlurnar á lofti. Mér tókst að komast klakklaust gegnum alla þessa leit, og var þá loksins kominn inn í þennan salernislausa biðsal, sem var troðfullur af farþegum á leiðinni hingað og þangað um alla heimsbyggðina, því miklar truflanir virtust vera á flugi þennan dag. Og þar fékk ég umsvifalaust þau tíðindi án frekari skýringa að fluginu til Keflavíkur myndi seinka um þrjár klukkustundir. En ég var ekki einn í þeirri stöðu og ekki verst settur, því einhverri flugvél til Madrid hafði seinkað um sólarhring; hún átti að vísu að fara að leggja af stað, en Spánverjarnir sungu ámátlega. Mér tókst með naumindum að finna sæti þar sem ég gat hreiðrað um mig, og ég velti því fyrir mér hvers konar hryðjuverkastarfsemi yfirvöld væru farin að óttast á salernum, fyrst þau væru hvergi til staðar í þessum þéttsetna biðsal, þar sem enginn gat vitað hvenær hann slyppi úr eftir að hann var einu sinni kominn inn. Þegar ég var sestur fór ég að fylgjast með öðrum farþegum, og heyrði þá á tal tveggja aldraðra kvenna sem voru að setja aftur á sig beltin með handbragði sem hefði gefið í skyn þetta og hitt við aðrar kringumstæður. „Fyrir fáum árum hefði enginn látið bjóða sér þetta," sagði önnur. Svar hinnar heyrði ég ekki, en nú var ég ekki lengur í neinum vafa um hið rökrétta samhengi: með þessu móti var sem sé verið að refsa mönnum fyrir að vera svo misheppnaðir að hafa ekki einkaþotu til að skutlast á milli landa.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun