Margrét Þórhildur Danadrottning fagnar sjötugsafmæli sínu með stæl þessa dagana. Í gærkvöldi fór fram viðhafnarsýning í Konunglega leikhúsinu í Kaupmannahöfn. Þar var drottningin búin að velja sér valda kafla úr Shakespeare-leikritum, dansa úr balletsýningum og tónverk sem færustu listamenn Danmerkur settu á svið.
Dorrit Mousaieff forsetafrú var fulltrúi Íslendinga á svæðinu og eins og sést á myndunum er hún eins og fiskur í vatni í fyrirmannaveislum sem þessum. Sat hún á besta stað í stúku með eintómar prinsessur í kringum sig. Í gær kom fram að Ólafur Ragnar festist á Íslandi eftir að flugvellir lokuðu en Dorrit var þá komin til Kaupmannahafnar.
Um tólf hundruð manns var boðið í leikhúsið en eldgosið í Eyjafjallajökli setti aldeilis strik í reikninginn. Fjöldi gestanna komst ekki á leiðarenda þegar lokað var fyrir flugsamgöngur. Leiða má líkur að því að Dorrit hafi þurft að svara mörgum spurningum vegna þess.
Meðal þeirra sem búist var við að myndu komast þrátt fyrir ástandið voru norsku konungshjónin en þau sáust hvergi. Madeleine Svíaprinsessa mætti ekki heldur á svæðið. Fyrr í vikunni var sagt frá því að brúðkaupi hennar og lögfræðingsins Jónasar Bergström hefði verið frestað. Sænskir fjölmiðlar velta því fyrir sér hvort sambandinu sé lokið. Sagt er að Madeleine sé í New York og hafi ákveðið að mæta ekki í veisluna til að jafna sig á fjölmiðlafárinu sem skall á henni.
Hátíðarhöldin halda áfram í Kaupmannahöfn í dag. Danir bíða með eftirvæntingu eftir því að drottningin aki í hestvagni um götur höfuðborgarinnar en sumir danskir fjölmiðlar lýsa yfir áhyggjum af því að öskuskýin frá Eyjafjallajökli fari að rigna eitruðu regni.
Í kvöld fer síðan fram svakalegt kvöldverðarboð í Konungshöllinni sem fleiri gestir munu eflaust skila sér í.
Dorrit sat hjá prinsessunum | Myndir
