Körfubolti

Marvin og Bárður valdir bestir í 1. deild karla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis.
Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis. Mynd/Anton
Marvin Valdimarsson, leikmaður Hamars, og Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis fengu stærstu verðlaunin fyrir 1. deild karla á lokahófi Körfuknattleikssambands Íslands í gærkvöldi. Marvin var valinn besti leikmaðurinn en Bárður var kosinn besti þjálfari deildarinnar.

Marvin Valdimarsson fór mikinn í liði Hamars sem tryggði sér sæti í Iceland Express deild karla næsta vetur með því að vinna deildarkeppnina. Marvin skoraði 31,1 stig að meðaltali í leik en hann skoraði yfir þrjátíu stig í 13 af 18 leikjum liðsins.

Bárður Eyþórsson, stýrði ungu liði Fjölnis upp í Iceland Express deildina með því að vinna úrslitakeppnina. Fjölnir sló Hauka út úr undanúrslitunum 2-1 og vann síðan báða leikina á móti Val í lokaúrslitunum.

Fjölnir og Hamar áttu bæði tvo leikmenn í úrvalsliði deildarinnar. Marvin Valdimarsson var að sjálfsögðu í liðinu ásamt félaga sínum Svavari Páli Pálssyni en þá voru einnig í liðinu tveir ungir Fjölnismenn, Ægir Þór Steinarsson og Haukur Helgi Pálsson. Fimmti leikmaður úrvalsliðsins var síðan Haukamaðurinn Sveinn Ómar Sveinsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×