Hjálmar og skildir Einar Már Jónsson skrifar 24. janúar 2009 04:45 Þegar ég fylgist úr mikilli fjarlægð með sjónvarpsfréttum af þeim undarlegu tíðindum sem hafa verið að gerast í hjarta Reykjavíkur síðustu daga, finnst mér þarna blasa við nokkuð kunnugleg sýn. Þarna eru á ferli lögreglumenn gráir fyrir járnum með hjálma og skildi, og andspænis þeim eru þeir sem kallaðir hafa verið „mótmælendur"; þeir kveikja bál fyrir framan lögreglumennina og grýta þá með öllu tiltækilegu eða færa þeim blóm. Við þetta fer ekki hjá því að hugurinn leiti aftur til maí '68, þegar ég sá sams konar atburði, reyndar ekki í sjónvarpsfréttum heldur á sjálfum götum Parísar. Sá munur sem ég tek fyrst eftir er sá að fyrir fjörutíu árum voru lögreglumennirnir með svarta skildi úr málmi sem blikuðu í skini götuljósanna á síðkvöldum, en nú eru komnir gagnsæir skildir. Þetta er ekki síður myndrænt, en á nokkuð annan hátt. Og þá voru andstæðingar lögreglumannanna lengst af ungir stúdentar, nú virðast mér þeir vera á öllum aldri. En þegar betur er að gáð má sjá mun á fleiri sviðum og hann mjög djúpstæðan. Finnst mér ekki úr vegi að rifja hann upp, ef það kynni að verða mönnum til nærkvæmari skilnings á því sem nú er að gerast. Samanburðurinn er allavega lærdómsríkur. Fyrir fjörutíu árum var „fasismi" ekki einungis skammaryrði og innihaldslaust orð eins og síðar varð, Franco var enn fastur í sessi á Spáni og hélt landinu í járngreipum, og í Suður-Evrópu a.m.k. voru þeir margir sem töldu slíkt stjórnarfar hið ákjósanlegasta, og vildu leggja sitt af mörkunum, ef þeir fengju færi á því, til að koma því á í heimalandinu. Þetta sannaðist í valdaráni herforingjanna í Grikklandi, sem menn fóru síðar að líta á sem tímaskekkju en kom mönnum ekki þannig fyrir sjónir á þessum tíma. Þetta gilti einnig í Frakklandi, þeir sem þar voru utarlega til hægri og voru ekki síst fjölmennir innan hers og lögreglu hötuðu vinstri menn af lífi og sál, einkum og sér í lagi vinstri sinnaða menntamenn, og kenndu þeim um allar ófarir landsins, þá síðast í Alsírstríðinu. „Það er í hausnum sem fiskurinn byrjar að rotna", sögðu þeir, og töldu einræði bestu lausnina. Það hefur gleymst að þegar herforingjar gerðu uppreisn í Algeirsborg í maí 1958 var tilgangurinn sá að koma til valda einhverjum frönskum Franco, og urðu ýmsir öfgafullir hægri menn æfir þegar í ljós kom að de Gaulle, sem þá varð forseti, ætlaði sér alls ekki að leika slíkt hlutverk. Þeir brunnu í skinninu eftir að hefna sín, og ef þeir fengu tækifæri gat ofbeldið orðið taumlaust, eins og í ljós kom í þeim atburðum sem kenndir eru við neðanjarðarstöðina Charonne í París, þar sem átta manns létu lífið í mótmælagöngu á útmánuðum 1962. En hatrið var gagnkvæmt og langvinnt, og skýrir það þá miklu hörku sem færðist í götubardagana í maí '68. Sumum misvitrum stjórnmálamönnum var þetta ekki á móti skapi, þeir sáu sér þarna leik á borði til að hræða almenning með óeirðunum og „upplausninni" og treysta sín eigin völd; því vildu þeir hafa lögregluna góða og leyfa henni að leika lausum hala refsinga- og áminningalaust. Þegar lögreglustjóri Parísar, sem var húmanisti, skrifaði öllum lögreglumönnum borgarinnar dreifibréf í júní '68 þar sem hann áminnti þá harðlega um að forðast allt ónauðsynlegt ofbeldi, kom alvarlega til tals innan stjórnarinnar að setja hann af og fá í staðinn annan sem væri ekki eins mikil veimiltíta; segir lögreglustjórinn frá þessum atburðum í endurminningum sínum. En þetta er allt saman liðin tíð. Franco er horfinn til feðra sinna, Salazar líka, og herforingjarnir í Grikklandi urðu að snauta burtu með skottið milli afturfótanna. Sá fasismi sem þessir menn voru fulltrúar fyrir er nú úr sögunni, og er ólíklegt að hann eigi sér nokkra talsmenn lengur svo heitið geti innan hers eða lögreglu nokkurs staðar. Hvað venjulegan almenning snertir fer frjálshyggjan nú ekki í manngreinarálit, þeir lögreglumenn sem standa með hjálma og skildi fyrir framan Alþingishús og Stjórnarráð eru fórnarlömb hennar ekki síður en mótmælendurnir sem að þeim sækja, það er eins líklegt að þeir hafi misst sparifé í hendur ólígarkanna eða standi uppi með óviðráðanlegar skuldir og hverjir aðrir. En hins vegar gæti alltaf komið upp sú freisting meðal einhverra misviturra ráðamanna, því þeir eru alls staðar til og á öllum tímum, að færa sér í nyt uppþot, sem eru í sjálfu sér nokkuð skiljanleg kraftbirting reiðinnar, til að kljúfa almenning og snúa taflinu sér í hag. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Einar Már Jónsson Mest lesið Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Er samþykki barna túlkunaratriði? Ólöf Tara Harðardóttir Skoðun Skýr sýn og metnaður Hákon Stefánsson Skoðun Allir geta drukknað en enginn þarf að drukkna Hildur Vattnes Kristjánsdóttir Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun
Þegar ég fylgist úr mikilli fjarlægð með sjónvarpsfréttum af þeim undarlegu tíðindum sem hafa verið að gerast í hjarta Reykjavíkur síðustu daga, finnst mér þarna blasa við nokkuð kunnugleg sýn. Þarna eru á ferli lögreglumenn gráir fyrir járnum með hjálma og skildi, og andspænis þeim eru þeir sem kallaðir hafa verið „mótmælendur"; þeir kveikja bál fyrir framan lögreglumennina og grýta þá með öllu tiltækilegu eða færa þeim blóm. Við þetta fer ekki hjá því að hugurinn leiti aftur til maí '68, þegar ég sá sams konar atburði, reyndar ekki í sjónvarpsfréttum heldur á sjálfum götum Parísar. Sá munur sem ég tek fyrst eftir er sá að fyrir fjörutíu árum voru lögreglumennirnir með svarta skildi úr málmi sem blikuðu í skini götuljósanna á síðkvöldum, en nú eru komnir gagnsæir skildir. Þetta er ekki síður myndrænt, en á nokkuð annan hátt. Og þá voru andstæðingar lögreglumannanna lengst af ungir stúdentar, nú virðast mér þeir vera á öllum aldri. En þegar betur er að gáð má sjá mun á fleiri sviðum og hann mjög djúpstæðan. Finnst mér ekki úr vegi að rifja hann upp, ef það kynni að verða mönnum til nærkvæmari skilnings á því sem nú er að gerast. Samanburðurinn er allavega lærdómsríkur. Fyrir fjörutíu árum var „fasismi" ekki einungis skammaryrði og innihaldslaust orð eins og síðar varð, Franco var enn fastur í sessi á Spáni og hélt landinu í járngreipum, og í Suður-Evrópu a.m.k. voru þeir margir sem töldu slíkt stjórnarfar hið ákjósanlegasta, og vildu leggja sitt af mörkunum, ef þeir fengju færi á því, til að koma því á í heimalandinu. Þetta sannaðist í valdaráni herforingjanna í Grikklandi, sem menn fóru síðar að líta á sem tímaskekkju en kom mönnum ekki þannig fyrir sjónir á þessum tíma. Þetta gilti einnig í Frakklandi, þeir sem þar voru utarlega til hægri og voru ekki síst fjölmennir innan hers og lögreglu hötuðu vinstri menn af lífi og sál, einkum og sér í lagi vinstri sinnaða menntamenn, og kenndu þeim um allar ófarir landsins, þá síðast í Alsírstríðinu. „Það er í hausnum sem fiskurinn byrjar að rotna", sögðu þeir, og töldu einræði bestu lausnina. Það hefur gleymst að þegar herforingjar gerðu uppreisn í Algeirsborg í maí 1958 var tilgangurinn sá að koma til valda einhverjum frönskum Franco, og urðu ýmsir öfgafullir hægri menn æfir þegar í ljós kom að de Gaulle, sem þá varð forseti, ætlaði sér alls ekki að leika slíkt hlutverk. Þeir brunnu í skinninu eftir að hefna sín, og ef þeir fengu tækifæri gat ofbeldið orðið taumlaust, eins og í ljós kom í þeim atburðum sem kenndir eru við neðanjarðarstöðina Charonne í París, þar sem átta manns létu lífið í mótmælagöngu á útmánuðum 1962. En hatrið var gagnkvæmt og langvinnt, og skýrir það þá miklu hörku sem færðist í götubardagana í maí '68. Sumum misvitrum stjórnmálamönnum var þetta ekki á móti skapi, þeir sáu sér þarna leik á borði til að hræða almenning með óeirðunum og „upplausninni" og treysta sín eigin völd; því vildu þeir hafa lögregluna góða og leyfa henni að leika lausum hala refsinga- og áminningalaust. Þegar lögreglustjóri Parísar, sem var húmanisti, skrifaði öllum lögreglumönnum borgarinnar dreifibréf í júní '68 þar sem hann áminnti þá harðlega um að forðast allt ónauðsynlegt ofbeldi, kom alvarlega til tals innan stjórnarinnar að setja hann af og fá í staðinn annan sem væri ekki eins mikil veimiltíta; segir lögreglustjórinn frá þessum atburðum í endurminningum sínum. En þetta er allt saman liðin tíð. Franco er horfinn til feðra sinna, Salazar líka, og herforingjarnir í Grikklandi urðu að snauta burtu með skottið milli afturfótanna. Sá fasismi sem þessir menn voru fulltrúar fyrir er nú úr sögunni, og er ólíklegt að hann eigi sér nokkra talsmenn lengur svo heitið geti innan hers eða lögreglu nokkurs staðar. Hvað venjulegan almenning snertir fer frjálshyggjan nú ekki í manngreinarálit, þeir lögreglumenn sem standa með hjálma og skildi fyrir framan Alþingishús og Stjórnarráð eru fórnarlömb hennar ekki síður en mótmælendurnir sem að þeim sækja, það er eins líklegt að þeir hafi misst sparifé í hendur ólígarkanna eða standi uppi með óviðráðanlegar skuldir og hverjir aðrir. En hins vegar gæti alltaf komið upp sú freisting meðal einhverra misviturra ráðamanna, því þeir eru alls staðar til og á öllum tímum, að færa sér í nyt uppþot, sem eru í sjálfu sér nokkuð skiljanleg kraftbirting reiðinnar, til að kljúfa almenning og snúa taflinu sér í hag.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Samtrygging verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins í eftirlaunasjóðum launafólks Kári Jónsson Skoðun