Bandarísk kvikmyndaaðsókn hefur einkennst af einu; börn og unglingar flykkjast í bíó um þessar mundir. Samkvæmt nýjust aðsóknartölum eru það þessir hópar sem kaupa popp og kók í amerískum kvikmyndahúsum og skemmta sér konunglega.
Disney-stjörnurnar Zac Efron og Miley Cyrus eru áberandi í efstu sætum aðsóknarlistans. Efron leikur í gamanmyndinni 17 Again á móti Vina-stjörnunni Mathew Perry. Cyrus er hins vegar með kvikmynd sem byggir á hinni heimsfrægu persónu hennar; Hönnuh Montana.
Önnur „barnamynd“ er síðan Monsters vs. Aliens sem hefur malað gull fyrir Dreamworks Animation. Myndin hefur nú verið sýnd í fjórar vikur í sýningum en ekkert lát er á vinsældum hennar og hún situr makindalega í fjórða sætinu. Ekki má gleyma framhaldsskólatryllinum Fast & Furious sem þrátt fyrir afleita dóma gagnrýnenda situr í fimmta sæti listans.
Eina kvikmyndin sem ætluð er eldra fólki er State of Play en það þurfti líka sannkallaðan stjörnuflota til að komast í efstu sætin. Russell Crowe, Robin Wright Penn, Helen Mirren og Jeff Daniels eru þar í aðalhlutverkum en myndin skaust upp í annað sætið. Af öðrum myndum sem nutu einhverrar hylli í Ameríku um nýliðna helgi má nefna Knowing með Nicholas Cage og gamanmyndina I Love You Man.
Táningar og börn hertaka miðasöluna
