Körfubolti

Glæsilegur sigur á Írum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena Sverrisdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Helena Sverrisdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Vilhelm

Ísland vann í kvöld glæsilegan níu stiga sigur á Írum, 77-68, í B-deild Evrópumóts kvenna í körfubolta en leikurinn fór fram á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Ísland var með forystuna í leiknum frá upphafi eftir að hafa komist 6-0 yfir í upphafi leiksins. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 16-12 og í hálfleik var hún 35-25, Íslandi í vil.

Ísland hélt áfram að auka forystuna jafnt og þétt í síðari leikhluta og var munurinn átján stig þegar fjórði leikhluti hófst, 61-43.

Írar bitu frá sér í síðasta leikhlutanum en náðu ekki að minnka muninn meira en í átta stig. Niðurstaðan því góður sigur hjá íslenska liðinu og sá fyrsti hjá því í ár.

Birna Valgarðsdóttir fór á kostum í kvöld og skoraði 21 stig auk þess sem hún tók ellefu fráköst. Helena Sverrisdóttir skoraði fjórtán stig, gaf tíu stoðsendingar og tók sjö fráköst. Signý Hermannsdóttir og María Ben Erlingsdóttir skoruðu tólf stig hvor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×