Körfubolti

Hljóðið var mjög gott í þeim leikmönnum sem við töluðum við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Jónsson og landsliðskonan Margrét Kara Sturludóttir.
Hannes Jónsson og landsliðskonan Margrét Kara Sturludóttir. Mynd/E.Stefán

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ var ánægður með að ver kominn með nýjan A-landsliðsþjálfara kvenna í körfubolta en KKÍ hefur gengið frá ráðningu Hennings Henningssonar í starfið.

„Það var mjög gott hvað þetta gekk vel. Við erum mjög glöð með að þetta hafi endað svona," segir Hannes en Henning var ekki sá eini sem var upp á borðinu.

„Við vorum með tvo til þrjá kosti upp á borðinu og þetta var það sem við kláruðum í fyrstu atrennu," sagði Hannes.

Henning var ráðinn fram á haust en Hannes segir að það sé alveg eins líkur á því að hann verði síðan áfram með liðið.

„Við vildum ráða mann sem fyrst þannig að við ákváðum að gera ekki langtímasamning. Við vildum frekar gera bara samning fram á haustið en ef allir aðilar eru sáttir þá er fyrsti kostur að ganga til viðræðna við Henning," sagði Hannes.

Hannes fór strax í það að tala við A-landsliðsleikmenn og var hann sáttur með hvernig viðbrögð hann fékk.

„Það er búið að hafa samband við langflesta leikmenn en það var gert í gærdag og í gærkvöldi. Hljóðið var mjög gott í þeim leikmönnum sem við töluðum við í gær. Ég á eftir að heyra í þeim leikmönnum sem eru erlendis og mun gera það í dag," segir Hannes.

Hannes segir að nú sé þetta erfiða mál að baki og hann og kvennalandsliðsnefndin geti nú farið að einbeita sér að því að ná árangri inn á vellinum.

„Ég er mjög feginn að þetta sé orðið klárt og nú er hægt að fara að snúa sér að næstu verkefnum hjá okkur," segir Hannes en fyrsta verkefni Hennings verða Smáþjóðaleikarnir á Kýpur í byrjun júní.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×