Grútarháleistar Bergsteinn Sigurðsson skrifar 3. nóvember 2009 06:00 Ég er ekki frá því að íslenskir kaupsýslumenn eigi inni afsökunarbeiðni frá mér. Ég vanmat þá, gerði lítið úr hugmyndaflugi þeirra. Á því rúma ári sem nú er liðið frá bankahruninu hélt ég satt best að segja að engar fréttir af svívirðilegum gjörningum og uppákomum gætu lengur komið mér á óvart eða gengið fram af mér. Ég hélt einhvern veginn að toppurinn á úrkynjuninni hefði verið þegar Sigurjón sást graðga í sig gyllta gyltu. En nei, hópur fólks, stórfjárfestar, tóku þetta skrefinu lengra en ég gat ímyndað mér og skuldsettu börnin sín. Þau tóku lán á nafni barna sinna til að fjármagna stofnfjárbréfakaup í Byr. Það yngsta var eins árs þegar foreldrar þess ákváðu að taka kúlulán upp á nokkrar milljónir í þess nafni. Í DV í gær var rætt við föður tveggja þessara barna. Þetta er satt best að segja hrollvekjandi lesning. „Forsendan á bakvið þetta hjá okkur var sú að bankinn ætlaði bara að ganga að þessum bréfum ef þetta gengi ekki upp og punktur. […] Ef það er engin áhætta í þessu, hvort sem það eru börn eða aðrir, hlýtur að vera ákaflega freistandi að taka slík lán. […] Það vissi enginn hvað myndi gerast […] Bankinn var ekkert að benda okkur á þetta. […] Ég hefði viljað fá ábendingu um að þetta mætti ekki." Takið eftir að þetta er ekki skáldskapur; þetta er ekki ýkt háðsádeila eftir Hallgrím Helgason, sem reynir að fanga súrrandi geggjun síðustu ára - til þess væri hún alltof geggjuð til að maður keypti hana. „Nei, nú er Hallgrímur búinn að missa það," myndi maður segja, hrista hausinn og fletta yfir á næstu síðu. Því miður er þetta ekki sturlað lesendabréf: þetta er maður sem í fullri alvöru er að reyna að réttlæta það af hverju hann hætti á að hneppa börnin sín í skuldafangelsi. Hver trúir því að verðbréfaviðskipti séu áhættulaus? Hver trúir því að það samræmist einhvern veginn lögum að stefna fjárhagslegri framtíð barna sinna í voða? Mér verður ekki oft brugðið, það þarf tiltölulega mikið til að ganga fram af mér. Og ég er ekki gefinn fyrir gífuryrði eða að setja fram stóryrtar yfirlýsingar í hita augnabliksins. Að ígrunduðu máli get ég þó ekki komist að annarri niðurstöðu en að þau sjónarmið sem faðirinn setur fram í viðtalinu við DV séu fullkominn hápunktur þeirrar siðferðilegu rotnunar sem tók sér bólfestu hér. Það hefur aldrei komið jafn skýrt fram af hverju það gat ekki farið öðruvísi en það fór. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bergsteinn Sigurðsson Mest lesið Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena J. Mörtudóttir Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt ! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Skilum skömminni Elín Birna Olsen Skoðun Getur þú fengið þá hjálp sem þú þarft ef andlega heilsan hrörnar? Sigurrós Eggertsdóttir Skoðun Gekk ég yfir sjó og land og ríkisstofnanir líka Magnús Guðmundsson Skoðun Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Reynir Samband sveitarfélaga að spilla gerð kennarasamninga? Ragnar Þór Pétursson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun
Ég er ekki frá því að íslenskir kaupsýslumenn eigi inni afsökunarbeiðni frá mér. Ég vanmat þá, gerði lítið úr hugmyndaflugi þeirra. Á því rúma ári sem nú er liðið frá bankahruninu hélt ég satt best að segja að engar fréttir af svívirðilegum gjörningum og uppákomum gætu lengur komið mér á óvart eða gengið fram af mér. Ég hélt einhvern veginn að toppurinn á úrkynjuninni hefði verið þegar Sigurjón sást graðga í sig gyllta gyltu. En nei, hópur fólks, stórfjárfestar, tóku þetta skrefinu lengra en ég gat ímyndað mér og skuldsettu börnin sín. Þau tóku lán á nafni barna sinna til að fjármagna stofnfjárbréfakaup í Byr. Það yngsta var eins árs þegar foreldrar þess ákváðu að taka kúlulán upp á nokkrar milljónir í þess nafni. Í DV í gær var rætt við föður tveggja þessara barna. Þetta er satt best að segja hrollvekjandi lesning. „Forsendan á bakvið þetta hjá okkur var sú að bankinn ætlaði bara að ganga að þessum bréfum ef þetta gengi ekki upp og punktur. […] Ef það er engin áhætta í þessu, hvort sem það eru börn eða aðrir, hlýtur að vera ákaflega freistandi að taka slík lán. […] Það vissi enginn hvað myndi gerast […] Bankinn var ekkert að benda okkur á þetta. […] Ég hefði viljað fá ábendingu um að þetta mætti ekki." Takið eftir að þetta er ekki skáldskapur; þetta er ekki ýkt háðsádeila eftir Hallgrím Helgason, sem reynir að fanga súrrandi geggjun síðustu ára - til þess væri hún alltof geggjuð til að maður keypti hana. „Nei, nú er Hallgrímur búinn að missa það," myndi maður segja, hrista hausinn og fletta yfir á næstu síðu. Því miður er þetta ekki sturlað lesendabréf: þetta er maður sem í fullri alvöru er að reyna að réttlæta það af hverju hann hætti á að hneppa börnin sín í skuldafangelsi. Hver trúir því að verðbréfaviðskipti séu áhættulaus? Hver trúir því að það samræmist einhvern veginn lögum að stefna fjárhagslegri framtíð barna sinna í voða? Mér verður ekki oft brugðið, það þarf tiltölulega mikið til að ganga fram af mér. Og ég er ekki gefinn fyrir gífuryrði eða að setja fram stóryrtar yfirlýsingar í hita augnabliksins. Að ígrunduðu máli get ég þó ekki komist að annarri niðurstöðu en að þau sjónarmið sem faðirinn setur fram í viðtalinu við DV séu fullkominn hápunktur þeirrar siðferðilegu rotnunar sem tók sér bólfestu hér. Það hefur aldrei komið jafn skýrt fram af hverju það gat ekki farið öðruvísi en það fór.