Körfubolti

Njarðvík sló út Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson mætti sínum gömlu félögum í Keflavík í kvöld.
Magnús Þór Gunnarsson mætti sínum gömlu félögum í Keflavík í kvöld. Mynd/Anton

Njarðvík sló út Keflavík í fjórðungsúrslitum Powerade-bikarkeppni karla sem lauk í kvöld, 79-76.

Njarðvík mætir KR í undanúrslitunum sem fara fram á miðvikudagskvöldið. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Grindavík og Snæfell.

Njarðvík byrjaði betur í leiknum í kvöld en Keflvíkingar náðu þó forystunni skömmu fyrir leikhlé og höfðu þá þriggja stiga forystu, 41-38.

Keflvíkingar héldu forystunni með naumindum í þriðja leikhluta en þeir grænklæddu komust á mikið flug um miðbik fjórða leikhlutans og breyttu stöðunni úr 60-69 í 75-70.

Leikmenn Keflavíkur náðu þó að minnka muninn í eitt stig á ný fyrir lokamínútu leiksins en Njarðvíkingar klikkuðu ekkert á vítalínunni á lokamínútunni og tryggðu sér þriggja stiga sigur.

Magnús Þór Gunnarsson og Jóhann Árni Ólafsson skoruðu sautján stig hvor og Guðmundur Jónsson var með þrettán stig.

Sigurður Þorsteinsson skoraði 20 stig fyrir Keflavík og Hörður Axel Vilhjálmsson átján. Sigurður tók þar að auki ellefu fráköst.

Grindavík vann nauman sigur á ÍR, 68-64, í spennandi leik þar sem liðin skiptust á að vera með forystu átta sinnum í leiknum.

Arnani Bin Daanish skoraði 22 stig fyrir Grindavík og tók tíu fráköst. Ómar Örn Sævarsson skoraði fimmtán stig. Hjá ÍR var Nemanja Sovic stigahæstur með fimmtán stig en Gunnlaugur Elsuson var með fjórtán.

Að síðustu vann Snæfell sigur á Stjörnunni á heimavelli, 96-83. Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoraði sautján stig fyrir Snæfell og Fannar Freyr Helgason 20 fyrir Stjörnuna.

Fjórungsúrslitum kvenna lauk einnig í dag þegar að Grindavík lagði Keflavík, 49-39, á útivelli.

Undanúrslitin fara fram á þriðjudaginn þar sem Haukar mæta Hamar annars vegar og KR liði Grindavíkur hins vegar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×