Viðskipti erlent

Icesave eykur við sérfræðinám í Bretlandi

Icesave klúðrið hefur valdið því að breska endurskoðunarfyrirtækið Chartered Institute of Public Finance & Accounting eða CIPFA og Samtök fjármálastjóra fyrirtækja (ACT) í Bretlandi hafa ákveðið að auka við sérfræðinám í alþjóðlegri fjármálastjórnun.

Í frétt um málið á vefsíðunni PublicFinance segir að nýtt nám í alþjóðlegri fjármálastjórnun verði tilkynnt í dag en námið eru viðbrögð við því neyðarástandi sem skapaðist meðal opinberra aðila í Bretlandi í kjölfar hruns íslensku bankanna.

CIPFA og ACT segja að hrun íslensku bankanna hafi leitt í ljós að fjármálastjórar hjá opinberum aðilum í Bretlandi þurfa á frekari menntun og reynslu að halda.

Eins og kunnugt er af fréttum töpuðu breskar bæjar- og sveitarstjórnir og aðrar opinberar stofnanir gífurlegum fjármunum á hruni íslensku bankanna, einkum á Icesave-reikningum.

„Við vorum með þetta nám á prjónunum áður en íslensku bankarnir hrundu en sá atburður öðru fremur varð til þess að staðfesta trú okkar á að opinberir þjónustuaðilar þurfa á frekari sérfræðiþekkingu að halda," segir Steve Freer forstjóri CIPFA.

Formaður ACT, Stuart Siddall segir að atburðir síðustu missera kenni þeim að stjórnendur verði að tryggja að þeir hafi rétta menntun og reynslu til að takast á við áhættu í fjármálum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×