Körfubolti

KR-konur eru Powerade-meistarar í kvennakörfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði KR, með bikarinn.
Hildur Sigurðardóttir, fyrirliði KR, með bikarinn. Mynd/Valli
KR var að tryggja sér sigur í Powerade-bikar kvenna í Laugardalshöllinni þegar liðið vann 4 stiga sigur á Hamar, 67-63, eftir spennandi leik. KR hafði ekki unnið þessa keppni í níu ár eða frá árinu 2000.

KR var með frumkvæðið framan af leik, 14-8 yfir eftir fyrsta leikhluta og 35-25 yfir í hálfleik. Hamarsliðið átti hinsvegar frábæran þriðja leikhluta sem liðið vann 22-10 og komst yfir í leiknum.

Hamar missti Kristrúnu Sigurjónsdóttur útaf með 5 villur þegar rúmar 8 mínútur voru eftir af leiknum en staðan var þá 52-48 fyrir Hamar. KR skoraði næstu þrettán stig og komst yfir 61-52. Hamar minnkaði muninn en náði ekki að brúa bilið og KR vann fjögurra stiga sigur.

Reynsluboltarnir Hildur Sigurðardóttir og Signý Hermannsdóttir skoruðu 13 af 17 stigum sínum í lokaleikhlutanum.

Jenny Pfeiffer-Finora var stigahæst hjá KR með 21 stig, Margrét Kara Sturludóttir var með 13 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar og Signý Hermannsdóttir var með 10 stig, 11 fráköst og 5 varin skot.

Koren Schram var með 15 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar hjá Hamar, Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 12 stig og Sigrún Ámundadóttir var með 12 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×