Fótbolti

Eiður skoraði í ótrúlegum sigri Barcelona

Iniesta, Messi og Eiður Smári fagna einu af mörkum liðsins í kvöld
Iniesta, Messi og Eiður Smári fagna einu af mörkum liðsins í kvöld AFP

Barcelona bauð upp á sannkallaða veislu á heimavelli sínum Nývangi í kvöld þegar liðið tók Atletico Madrid í kennslustund í stórleik kvöldsins.

Atletico hafði byrjað nokkuð vel í deildinni í haust, en Börsungar skoruðu fimm mörk fyrstu 28 mínútum leiksins í kvöld og kláruðu dæmið snemma.

Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliðinu og átti skínandi leik. Hann skoraði fimmta mark Barcelona í þessum ótrúlega leik. Þetta var annað mark hans fyrir liðið í deildinni.

Barcelona liðið hefur verið hikstandi í fyrstu leikjum tímabilsins en af leik kvöldsins má dæma að Guardiola þjálfari sé ef til vill búinn að finna réttu blönduna.

Leikmenn hans fóru hreint út sagt á kostum og skemmtu áhorfendum fyrir allan peninginn - allt frá Nývangi og hingað til Íslands þar sem leikurinn var sýndur beint á Stöð 2 Sport

Barcelona skaust með sigrinum í annað sæti deildarinnar og hefur hlotið 13 stig, þremur minna en topplið Villarreal sem lagði Betis 2-1 í skrautlegum leik fyrr í kvöld.



Barcelona 6 - Atletico Madrid 1


1-0 Marquez ´4

2-0 Eto´o (víti) ´6

3-0 Messi ´8

3-1 Rodriguez ´13

4-1 Eto´o ´18

5-1 Eiður Smári ´28

6-1 Henry ´63










Fleiri fréttir

Sjá meira


×