Sabína-rökvillan Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar 13. júní 2008 06:00 Vilhjálmur var maður nefndur, kardínáli af Sabína. Hann var uppi á þrettándu öld og sendur til Noregs 1247 til að krýna Hákon konung gamla. Þá voru þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson staddir við hirð konungs og fluttu mál sitt fyrir kardínálanum. Vilhjálmur af Sabína „kallaði það ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni", eins og segir í Hákonar sögu. Þetta er algeng röksemd: Einn verður að gera eitthvað, af því að allir aðrir gera það. Röksemd Vilhjálms af Sabína er óspart notuð í umræðum um Evrópusambandið. Við þurfum að ganga í það, af því að allir aðrir eru í því. Nú er það að vísu svo, að tvær ríkustu þjóðir Evrópu eru ekki í Evrópusambandinu. Svisslendingar láta sig ekki dreyma um inngöngu, og aðild hefur tvisvar verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Noregi. Ástæður Svisslendinga og Norðmanna til þess að standa utan Evrópusambandsins eru hinar sömu og Íslendinga. Þessar þjóðir hafa með samningum tryggt sér óhindraða aðild að mörkuðum Evrópuríkjanna, svo að engin nauður rekur þær inn í Evrópusambandið. Um leið vita þær, að þær yrðu vegna auðlegðar sinnar að bera feikilegan kostnað af aðild. Í mínum huga er röksemd Vilhjálms af Sabína nær því að vera rökvilla en sjálfstæð röksemd. Við þurftum ekki 1247 að þjóna undir konung, þótt allar aðrar þjóðir gerðu það. Ólán okkar þá var, að við vorum sjálfum okkur sundurþykk, svo að þjóðveldið brast. Eins þurfum við ekki nú að beygja okkur undir ráðamenn í Brussel, þótt flestar aðrar Evrópuþjóðir geri það. Spurningin nú er, hvaða brýna nauðsyn knýr okkur inn í ESB. Ég kem ekki auga á hana, þótt vitaskuld myndi aðild ekki merkja heimsendi, eins og dæmi Dana, Svía og Finna sýna. Meginröksemdin fyrir aðild er ógild. Hún er, að við þyrftum að hafa áhrif á þær ákvarðanir, sem okkur varða og teknar eru í Brussel. Hvort sem við værum í Evrópusambandinu eða ekki, myndum við lítil áhrif hafa á mikilvægar ákvarðanir stórþjóðanna. Lítt er að marka kurteisishjal í Brussel við gesti, sem síðan hafa sjálfir hagsmuni af því heima fyrir að ýkja áhrif sín. Önnur meginröksemdin gegn aðild hefur þegar verið nefnd, sem er hinn mikli og óþarfi kostnaður. Hin meginröksemdin er líka gild: Við myndum afsala okkur yfirráðum yfir fiskistofnum á Íslandsmiðum í hendur ráðamanna í Brussel. Það er afdráttarlaus og undantekningarlaus stefna þeirra, staðfest í sáttmálum og óteljandi yfirlýsingum, að auðlindir Evrópusambandsríkjanna séu sameiginlegar. Við fengjum eflaust einkaaðgang að Íslandsmiðum í einhvern tíma, en sá aðgangur yrði fyrir náð Brussel-manna, ekki réttur okkar. Það, sem verra er: Evrópusambandið fylgir óhagkvæmri fiskveiðistefnu, sem hefur skilað vondum árangri. Sú röksemd, að Brussel-menn myndu vera samvinnuþýðir við okkur í samningum um sjávarútvegsmál (sem er eflaust rétt), minnir raunar á málflutning Loðins lepps, sendimanns Noregskonungs, sem hét Íslendingum 1280 miskunn konungs, ef þeir stæðu ekki á fornum rétti. Hvað sem því líður, eru lífskjör í víðum skilningi hin bestu í heimi á Íslandi samkvæmt mælingum Sameinuðu þjóðanna, sem nýlega voru kynntar. Þótt á móti blási um stund vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu og þó minna en í mörgum grannlöndum, er ástæðulaust að hlaupa í fangið á Vilhjálmi af Sabína, Loðni lepp og sálufélögum þeirra. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hannes Hólmsteinn Gissurarson Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Vók er vont – frambjóðandi XL kærður til lögreglu Kári Allansson Skoðun Kosningabaráttan er kostuð af þér Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Af hverju ætti ég að standa með kennurum? Stefán Birgir Jóhannesson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Dýrkeypt jólagjöf Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Veldu Viðreisn Katrín Sigríður J Steingrímsdóttir Skoðun
Vilhjálmur var maður nefndur, kardínáli af Sabína. Hann var uppi á þrettándu öld og sendur til Noregs 1247 til að krýna Hákon konung gamla. Þá voru þeir Þórður kakali og Gissur Þorvaldsson staddir við hirð konungs og fluttu mál sitt fyrir kardínálanum. Vilhjálmur af Sabína „kallaði það ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni", eins og segir í Hákonar sögu. Þetta er algeng röksemd: Einn verður að gera eitthvað, af því að allir aðrir gera það. Röksemd Vilhjálms af Sabína er óspart notuð í umræðum um Evrópusambandið. Við þurfum að ganga í það, af því að allir aðrir eru í því. Nú er það að vísu svo, að tvær ríkustu þjóðir Evrópu eru ekki í Evrópusambandinu. Svisslendingar láta sig ekki dreyma um inngöngu, og aðild hefur tvisvar verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslum í Noregi. Ástæður Svisslendinga og Norðmanna til þess að standa utan Evrópusambandsins eru hinar sömu og Íslendinga. Þessar þjóðir hafa með samningum tryggt sér óhindraða aðild að mörkuðum Evrópuríkjanna, svo að engin nauður rekur þær inn í Evrópusambandið. Um leið vita þær, að þær yrðu vegna auðlegðar sinnar að bera feikilegan kostnað af aðild. Í mínum huga er röksemd Vilhjálms af Sabína nær því að vera rökvilla en sjálfstæð röksemd. Við þurftum ekki 1247 að þjóna undir konung, þótt allar aðrar þjóðir gerðu það. Ólán okkar þá var, að við vorum sjálfum okkur sundurþykk, svo að þjóðveldið brast. Eins þurfum við ekki nú að beygja okkur undir ráðamenn í Brussel, þótt flestar aðrar Evrópuþjóðir geri það. Spurningin nú er, hvaða brýna nauðsyn knýr okkur inn í ESB. Ég kem ekki auga á hana, þótt vitaskuld myndi aðild ekki merkja heimsendi, eins og dæmi Dana, Svía og Finna sýna. Meginröksemdin fyrir aðild er ógild. Hún er, að við þyrftum að hafa áhrif á þær ákvarðanir, sem okkur varða og teknar eru í Brussel. Hvort sem við værum í Evrópusambandinu eða ekki, myndum við lítil áhrif hafa á mikilvægar ákvarðanir stórþjóðanna. Lítt er að marka kurteisishjal í Brussel við gesti, sem síðan hafa sjálfir hagsmuni af því heima fyrir að ýkja áhrif sín. Önnur meginröksemdin gegn aðild hefur þegar verið nefnd, sem er hinn mikli og óþarfi kostnaður. Hin meginröksemdin er líka gild: Við myndum afsala okkur yfirráðum yfir fiskistofnum á Íslandsmiðum í hendur ráðamanna í Brussel. Það er afdráttarlaus og undantekningarlaus stefna þeirra, staðfest í sáttmálum og óteljandi yfirlýsingum, að auðlindir Evrópusambandsríkjanna séu sameiginlegar. Við fengjum eflaust einkaaðgang að Íslandsmiðum í einhvern tíma, en sá aðgangur yrði fyrir náð Brussel-manna, ekki réttur okkar. Það, sem verra er: Evrópusambandið fylgir óhagkvæmri fiskveiðistefnu, sem hefur skilað vondum árangri. Sú röksemd, að Brussel-menn myndu vera samvinnuþýðir við okkur í samningum um sjávarútvegsmál (sem er eflaust rétt), minnir raunar á málflutning Loðins lepps, sendimanns Noregskonungs, sem hét Íslendingum 1280 miskunn konungs, ef þeir stæðu ekki á fornum rétti. Hvað sem því líður, eru lífskjör í víðum skilningi hin bestu í heimi á Íslandi samkvæmt mælingum Sameinuðu þjóðanna, sem nýlega voru kynntar. Þótt á móti blási um stund vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu og þó minna en í mörgum grannlöndum, er ástæðulaust að hlaupa í fangið á Vilhjálmi af Sabína, Loðni lepp og sálufélögum þeirra.