Viðskipti erlent

Áform um Virgin banka

Richard Branson við eina flugvéla Virgin flugfélagsins á Heathrow flugvelli.
Richard Branson við eina flugvéla Virgin flugfélagsins á Heathrow flugvelli. MYND/AFP

Virgin Group fyrirtæki Richard Bransons áformar að opna banka þrátt fyrir misheppnaðan Northern Rock samning samkvæmt heimildum breska blaðsins Daily Telegraph.

Ríkisstjórn Bretlands hafnaði boði Virgin í Northern Rock í síðsta mánuði og tilkynnti áform um að ríkisvæða bankann sem hefur átt í miklum erfiðleikum. Þrátt fyrir það segir heimildarmaður blaðsins að Virgin muni opna banka innan árs.

Virgin Money dótturfyrirtæki Virgin Group mun sjá um framkvæmdina. Fyrirtækið vonast til að verða að almennum banka, en hefur gefið í skyn að það gæti verið of metnaðarfullt markmið að ná á svo skömmum tíma.

Einn heimildarmaður blaðsins sagði að það yrði auðveldara fyrir Virgin að stofna internetbanka frekar en almennan viðskiptabanka nema annað tækifæri í líkingu við Northern Rock reki á fjörur þess. Þó geti fyrirtækið ákveðið að láta til skarar skríða og komast á almennan markað.

Áformin munu vera á algjöru frumstigi, en heimildarmenn Telegraph segja að almenningur myndi fagna Virgin á bankamarkaðnum. Ef bankinn verði að veruleika eigi nafnið Virgin Bank vel við.Talið er að fjármagn hafi þegar verið ráðstafað í verkefnið en Virgin neitar að tjá sig um málið.

Jason Wyer-Smith talsmaður Virgin Money segir að það hafi verið ljóst að ef samningar tækjust ekki um Northern Rock myndi Virgin Money verða eflt. „Það þýðir vissulega að við munum leita leiða til að komast inn á bankamarkaðinn," sagði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×