Á vefsíðu Nettavisen segir að norska liðið Viking hafi komist að samkomulagi við sænska liðið Sundsvall um söluna á íslenska landsliðsmanninum Hannesi Þ. Sigurðssyni. Hannes er því kominn í samningaviðræður við sænska liðið.
Hannes óskaði sjálfur eftir því að vera seldur frá Viking en samband hans við þjálfara norska liðsins hefur ekki verið eins og best verður á kosið.
Æskufélagi Hannesar og liðsfélagi úr FH, Sverrir Garðarsson, samdi nýverið við sænska Sundsvall sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. „Ég hefði ekkert á móti því að hitta hann aftur, af því að ég kannast nú aðeins við hann," sagði Hannes í viðtali við Vísi fyrir skömmu.