Harry Bretaprins er kominn til Bretlands eftir rúmlegja tveggja mánaða dvöl í Afghanistan þar sem hann sinnti herþjónustu. Prinsinn var þegar í gær sendur frá vígstöðvunum í Helmand héraði til Kandahar, þar sem hann tók flugvél heim til Bretlands. Hann lenti á Brize Norton herstöðinni laust fyrir hádegi.
Harry er sagður vera bæði sár og reiður yfir því að fjölmiðlar komu upp um veru hans í Afganistan. Hann hefur undanfarnar tíu vikur verið í fremstu víglínu í Helmand héraði, sem er róstusamasta hérað í landinu.
Breska herstjórnin vildi í upphafi hvorki senda Harry til Íraks né Afganistan.
Ástæður herstjórnarinnar voru þær að það myndi skapa mikla hættu bæði fyrir Harry sjálfan og félaga hans að hann væri sendur á átakasvæði. Telja mætti nokkuð víst að óvinirnir myndu gera allt sem þeir gætu til þess að ræna honum eða drepa.
Harry hótaði þá að segja sig úr hernum, þar sem hann taldi ekkert gagn af því að vera þar ef hann fengi ekki að fylgja félögum sínum á vígvöllinn.
Þá var gripið til þess ráðs að senda hann með mikilli leynd til Afganistans. Gerðir voru samningar við breska fjölmiðla um að segja ekki frá því, gegn því að þeir fengju að fylgjast með honum og mynda hann á vígvellinum.
Ástralskt kvennablað sagði frá veru hans í Afganistans fyrir einhverjum vikum, en ekki var tekið neitt mark á því. Í gær birtist hinsvegar frétt um málið í Drudge report og þá var ekki aftur snúið.
Þrátt fyrir að prinsinn sé nú farinn frá Afganistan hafa talibanar hótað hefndum fyrir dvöl hans í landinu.