Listahópurinn The Weird Girls Project leitar nú að kalltæki og tæki sem framleiðir sápukúlur vegna nýs myndbands sem hann ætlar að gera fyrir Emilíönu Torrini.
Tökur á myndbandinu, sem verður í leikstjórn Bretans Ali Taylor, hefjast næstkomandi laugardag og því þurfa þær stúlkur að hafa hraðann á ætli þær að hafa allt tilbúið í tæka tíð. Emilíana fær að hafa lítil sem engin afskipti af myndbandinu en þrátt fyrir það samþykkti hún gerð þess án þess að hika. Stúlkurnar í The Weird Girls Project fá hvorki að vita hvar myndbandið verður tekið upp né hvert þeirra hlutverk verður fyrr en samdægurs.