Grænn markaður er heildsala sem selur allt til innpökkunar en þó eingöngu til fyrirtækja.
„Við hjá Grænum markaði bjóðum nú ekki upp á innpökkun en seljum til fyrirtækja og erum með mikið úrval af umbúðum. Við erum með margar tegundir, stærðir og gerðir af gjafapappír, pokum, öskjum, borðum og erum í raun með allt til innpökkunar,“ útskýrir Kristín Magnúsdóttir, sölumaður og blómaskreytir.

„Mér þykir þetta klassíska fallegt og útbý oft skreytingar á pakkana sem hægt er að nýta einar sér síðar meir, til dæmis sem borðskraut. Gaman er að gera aðeins meira úr pökkunum og það þarf ekki að vera flókið,“ segir Kristín og nefnir að fólki þyki gaman að fá fallega skreytta pakka.

„Við seljum líka körfur og kurl sem hægt er að nota undir ýmiss konar gjafir, þannig það eru fjölbreyttir möguleikar í boði fyrir fyrirtæki,“ segir Kristín en hún og samstarfsfólk hennar leiðbeina við litaval og annað tilfallandi.