Körfubolti

Grindavík og KR mætast í úrslitum

Friðrik Ragnarsson stýrði sínum mönnum til sigurs í kvöld.
Friðrik Ragnarsson stýrði sínum mönnum til sigurs í kvöld. Mynd/E. Stefán

Grindavík tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Powerade-bikarkeppni karla með sigri á Snæfelli í undanúrslitunum, 74-71.

Grindavík mætir því KR í úrslitunum á sunnudaginn en fyrr í kvöld vann KR sigur á Keflavík.

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur í fyrri hálfleik en Grindavík hafði eins stigs forystu eftir fyrsta leikhluta. Snæfell hafði svo undirtökin í öðrum leikhluta en slakur sóknarleikur Grindvíkinga skilaði aðeins fjórum stigum á fyrstu sex mínútunum. Þrátt fyrir það hafði Snæfell aðeins fjögurra stiga forystu í hálfleik, 38-34.

Grindvíkingar skoruðu fyrstu tíu stigin í seinni hálfleik og létu forystuna aldrei af hendi eftir það. Snæfell náði þó að minnka muninn í fjögur stig þegar rúm mínúta var til leiksloka en Grindvíkingar náðu þá aftur að breikka bilið.

Damon Baily var stigahæstur hjá Grindavík með 24 stig og tíu fráköst. Helgi Jónas Guðfinnson skoraði fjórtán og Brenton Birmingham ellefu.

Nate Brown skoraði átján fyrir Snæfell og gaf átta stoðsendingar. Hlynur Bæringsson var með sautján stig og sautján fráköst en Nikola Dzeverdanovic var með fjórtán stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×