Klarínettuleikarinn Einar Jóhannesson, einn af þekktustu einleikurum landsins, kemur fram á hádegistónleikum í Dómkirkjunni í Reykjavík á morgun kl. 12.15 ásamt Douglas A. Brotchie, organista Háteigskirkju.
Tónleikarnir eru liður í hádegistónleikaröð tónlistarhátíðarinnar Alþjóðlegs orgelsumars. Þá koma þeir Einar og Douglas einnig fram á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju á laugardag kl. 12.
Í Dómkirkjunni leika þeir félagar fyrst fjórar Kirkjusónötur eftir Mozart sem eru útsettar fyrir klarínett og orgel af Yonu Ettlinger. Síðan leika þeir Exultavit Maria sem Jónas Tómasson skrifaði fyrir þá og að lokum leikur Douglas tvo kafla úr orgelverkinu Dýrð Krists sem einnig er eftir Jónas.
Á tónleikunum í Hallgrímskirkju leika Einar og Douglas fyrst Concertino eftir ítalska barroktónskáldið Giuseppe Tartini í útsetningu Gordons Jacobs. Þá leika þeir Music when soft voices die eftir John Speight sem hann skrifaði sérstaklega fyrir þá og tónleikunum á laugardaginn lýkur með Hugleiðingu um ummyndum Krists á fjallinu eftir Hafliða Hallgrímsson sem Douglas leikur á Klais-orgelið.- vþ