Körfubolti

Keflavík og Grindavík í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Grindavíkur og Njarðvíkur.
Úr leik Grindavíkur og Njarðvíkur. Mynd/SB
Keflavík og Grindavík tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum í Powerade-bikarkeppninni í körfubolta í kvöld.

Keflavík vann góðan sigur á Þór á heimavelli, 100-81.

Norðanmenn byrjuðu reyndar miklu mun betur og voru með átta stiga forystu eftir fyrsta leikhluta og staðan í hálfleik var 55-50, Þórsurum í vil.

En Keflvíkingar tóku öll völd í þriðja leikhluta sem þeir unnu með 27 stigum gegn ellefu. Þeir héldu svo uppteknum hætti í þeim fjórða og unnu öruggan nítján stiga sigur sem fyrr segir.

Gunnar Einarsson skoraði nítján stig fyrir Keflavík og þrír leikmenn voru með fjórtán stig, þeirra á meðal Jesse Pelot-Rosa, nýi bandaríski leikmaður Keflavíkur.

Cedric Isom skoraði 23 stig fyrir Þór.

Njarðvíkingar byrjuðu betur í Röstinni í kvöld en eftir annan leikhluta náðu Grindvíkingar undirtökunum í leiknum. Staðan í leikhléi var 55-51, heimamönnum í vil og lokatölur 104-86.

Páll Axel Vilbergsson fór á kostum í leiknum og skoraði 39 stig í leiknum. Damon Bailey skoraði fimmtán, rétt eins og Arnar Freyr Jónsson.

Logi Gunnarsson skoraði 25 stig fyrir Njarðvík í kvöld en Subasic átján og Sitton var með sautján.

Undanúrslitin fara fram í Laugardalshöllinni á föstudagskvöldið. Þar mætir KR liði Keflavíkur og Grindvíkingar mæta Snæfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×