Körfubolti

NBA: Lakers komið í 3-1

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brent Barry reynir hér að tryggja sínum mönnum sigur í leiknum en margir töldu að Derek Fisher hafi brotið á honum í skottilraun hans.
Brent Barry reynir hér að tryggja sínum mönnum sigur í leiknum en margir töldu að Derek Fisher hafi brotið á honum í skottilraun hans. Nordic Photos / Getty Images

LA Lakers vann í nótt tveggja stiga sigur á San Antonio, 93-91, og er þar með komið með 3-1 forystu í úrslitarimmu liðanna í Vesturdeildinni í NBA-körfuboltanum.

Brent Barry, leikmaður San Antonio, reyndi að tryggja sínum mönnum sigur með þriggja stiga skoti undir lok leiksins en skot hans geigaði. Margir töldu reyndar að Derek Fisher, leikmaður Lakers, hafði brotið á Barry en ekkert var dæmt.

Lakers var með forystu allan leikinn eftir að hafa komist í 22-8 forystu strax í upphafi leiksins. San Antonio náði að minnka muninn í tvö stig í fjórða leikhluta, 81-79, en þá skoraði Lakers sjö stig í röð. Lakers hafði einmitt sjö stiga forystu þegar 50 sekúndur voru til leiksloka en þá misnotaði Pau Gasol tvö vítaskot.

San Antonio náði að minnka muninn í 93-91 en komst ekki nær sem fyrr segir.

„Það er ekki dæmt á svona lagað í úrslitum Vesturdeildarinnar," sagði Barry um meint brot Fisher á sér. „Kannski í deildarkeppninni en ekki í úrslitunum."

Gregg Popovich, þjálfari Spurs, tók í samskonar streng. „Ef ég hefði verið dómarinn hefði ég ekki dæmt á þetta."

Fisher sjálfur átti heldur aldrei von á því að hann yrði dæmdur brotlegur. „Ég held að við lentum á sama tíma og það var vissulega snerting. En ég braut ekki á honum."

Kobe Bryant fór mikinn í leiknum og skoraði 28 stig þrátt fyrir að fara aldrei á vítalínuna. Hann tók einnig tíu fráköst. Lamar Odom var með sextán stig, Vladimir Radmanovic ellefu og Pau Gasol tíu stig og tíu fráköst.

Hjá San Antonio var Tim Duncan stigahæstur með 29 stig og sautján fráköst. Tony Parker og Barry voru með 23 stig hver en aðrir voru með sjö stig eða minna.

Lakers getur nú tryggt sér sigur í úrslitum NBA-deildarinnar á fimmtudagskvöldið með sigri á heimavelli. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×