Er Bréf til Láru bjánalegt? Guðmundur Andri Thorsson skrifar 21. apríl 2008 06:00 Skemmtileg umræða var í Morgunblaðinu í síðustu viku um gáfnafar unglinga í framhaldi af léttúðugum ummælum Egils Helgasonar í Kiljunni þegar rætt var um Bréf til Láru eftir Þórberg. Hann sagði glaðhlakkalega: „Unglingar eru náttúrlega mjög vitlausir." Svona segir maður náttúrlega ekki eins og Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, nemandi í 9. bekk í Hagaskóla, bendir Agli á í skeleggri Moggagrein sem engu er við að bæta. Egill segir ögn lúpulegur í samtali við blaðamann að þetta hafi nú verið grín og eiginlega mest um hann sjálfan: „Ég var mjög vitlaus sem unglingur /.../ Til dæmis fannst mér Bréf til Láru /.../ mjög góð bók þegar ég var unglingur. Seinna sá ég að svo var ekki." Við þetta má gera þrjár athugasemdir.„Gáfaðir unglingar“Í fyrsta lagi var Egill Helgason sérlega vel gefið ungmenni. Og ekki veit ég hvort skoðanir hans á ungdómsárum voru kjánalegri en þær sem hann aðhyllist núna - ég er til dæmis ekki viss um að málflutningur hans um umhverfismál vitni um aukinn vitsmunaþroska. Hann snýst einvörðungu um að vera ósammála Árna Finnssyni því hann sé „atvinnumaður í umhverfisvernd". Það er svona eins og að vera andvígur spænsku af því að til eru spænskukennarar.Í öðru lagi eru unglingar ekki vitlausir. Þeir eru næmir og opnir og eldsnöggir að hugsa. Hugsun þeirra er stundum stygg og þeir geta verið einþykkir en vakni forvitni þeirra geta þeir umfram aðra aldurshópa nálgast viðfangsefni úr óvæntri og ferskri átt því þeir taka engu sem gefnu og eru ekki með hausinn fullan af drasli. Á góðum degi einkennir þetta raunar einmitt Egil Helgason - á sínum bestu stundum er hann ennþá bráðvel gefið ungmenni. Því við höfum í okkur allan aldur: ég þarf ekki annað en að heyra Bítlana til að verða svolítið níu ára. Það er góð tilfinning.Vondur boðskapur?Réttlætiskennd ungmenna er ólöskuð enn og þess vegna eru þau oft móttækileg fyrir hugsjónum jafnaðar og bræðralags og eiga bágt með að skilja sanngirni misskiptingar og réttlæti ranglætisins - um leið og einstaklingsvitund þeirra þroskast mjög á þessum árum sem veldur því að þau eiga bágt með að þola valdboð.En sumsé: Mér finnst það ekki til marks um að nokkur maður sé vitlaus að finnast Bréf til Láru góð bók.Eða hvað er svona vont við hana? Að hún ráðist á viðteknar hugmyndir um gildi frjálsar samkeppni en hylli sameignarfyrirkomulagið? Eða á þessi setning hér úr III. kafla ekki akkúrat svo átakanlega vel við núna:„Það er löngu úreltur skrælingjabragur að láta fáfróða og ábyrgðarlausa braskara verzla með líf og velferð almennings."Eru það árásir Þórbergs á katólsku kirkjuna? Hann var sakaður um að skrifa tröllasögur um illa meðferð kirkjunnar á skjólstæðingum, en jafnvel hann með allan sinn haus hafði ekki hugmyndaflug til að ímynda sér allan þann hrylling sem kórdrengir í Bandaríkjunum reyndust hafa mátt þola unnvörpum af sveittri hendi þuklandi klerka. Og eru ekki árásir Þórbergs á böl trúræðisins í fullu gildi fyrir alla sem gjalda varhug við ítökum klerka í samfélögum múslíma?Eru það árásirnar á hina þrúgandi kúgun sveitamenningarinnar og hylling borgarlífsins? Hann skar upp herör gegn öllu því sem var staðnað á Íslandi og til þess fallið að kúga einstaklingana og meina þeim að njóta sín. Bréf til Láru er áróðursrit fyrir mannúð, frjálsri hugsun og frjálsu vali, og sérhver málsgrein geislar þar af hatri á valdþótta og smákóngadrýldni.Vissulega mistókust tilraunir til að koma á fót sameignarþjóðskipulagi hroðalega á 20. öldinni, með ægilegum afleiðingum fyrir milljónir manna. Um það deilir fólk ekki lengur. Og Þórbergur gekk vissulega í björg Stalíns og átti sínar niðurlægingarstundir í þeirri vist. Það vitum við. En ef við einblínum á það þegar við lesum Bréf til Láru þá fer ýmislegt framhjá okkur. Þar má sjá frjálsan anda á tignarlegu flugi. Þar má lesa magnaðar hryllingssögur og vitnisburði um öfgafullt sálarlíf. Þar má njóta ritsnilldar manns með algjört stíleyra. Þar má skemmta sér yfir galgopaskap manns sem tekur sig ekki hátíðlega. Þar gefst þyrstri sál að lesa beitt uppgjör við efnishyggju og andleysi, hlutadýrkun, brask og taumlausa auðsöfnun fárra á kostnað fjöldans - allt raunveruleg vandamál okkar daga.Gjaldþrot kommúnismans gerir kapítalismann ekki gáfulegri í sjálfu sér.Bréf til Láru er góð bók því hún bendir út fyrir ramma vanahugsunar. Hún hvetur okkur til að hugsa lengra - og hugsa sjálfstætt saman. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Skemmtileg umræða var í Morgunblaðinu í síðustu viku um gáfnafar unglinga í framhaldi af léttúðugum ummælum Egils Helgasonar í Kiljunni þegar rætt var um Bréf til Láru eftir Þórberg. Hann sagði glaðhlakkalega: „Unglingar eru náttúrlega mjög vitlausir." Svona segir maður náttúrlega ekki eins og Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, nemandi í 9. bekk í Hagaskóla, bendir Agli á í skeleggri Moggagrein sem engu er við að bæta. Egill segir ögn lúpulegur í samtali við blaðamann að þetta hafi nú verið grín og eiginlega mest um hann sjálfan: „Ég var mjög vitlaus sem unglingur /.../ Til dæmis fannst mér Bréf til Láru /.../ mjög góð bók þegar ég var unglingur. Seinna sá ég að svo var ekki." Við þetta má gera þrjár athugasemdir.„Gáfaðir unglingar“Í fyrsta lagi var Egill Helgason sérlega vel gefið ungmenni. Og ekki veit ég hvort skoðanir hans á ungdómsárum voru kjánalegri en þær sem hann aðhyllist núna - ég er til dæmis ekki viss um að málflutningur hans um umhverfismál vitni um aukinn vitsmunaþroska. Hann snýst einvörðungu um að vera ósammála Árna Finnssyni því hann sé „atvinnumaður í umhverfisvernd". Það er svona eins og að vera andvígur spænsku af því að til eru spænskukennarar.Í öðru lagi eru unglingar ekki vitlausir. Þeir eru næmir og opnir og eldsnöggir að hugsa. Hugsun þeirra er stundum stygg og þeir geta verið einþykkir en vakni forvitni þeirra geta þeir umfram aðra aldurshópa nálgast viðfangsefni úr óvæntri og ferskri átt því þeir taka engu sem gefnu og eru ekki með hausinn fullan af drasli. Á góðum degi einkennir þetta raunar einmitt Egil Helgason - á sínum bestu stundum er hann ennþá bráðvel gefið ungmenni. Því við höfum í okkur allan aldur: ég þarf ekki annað en að heyra Bítlana til að verða svolítið níu ára. Það er góð tilfinning.Vondur boðskapur?Réttlætiskennd ungmenna er ólöskuð enn og þess vegna eru þau oft móttækileg fyrir hugsjónum jafnaðar og bræðralags og eiga bágt með að skilja sanngirni misskiptingar og réttlæti ranglætisins - um leið og einstaklingsvitund þeirra þroskast mjög á þessum árum sem veldur því að þau eiga bágt með að þola valdboð.En sumsé: Mér finnst það ekki til marks um að nokkur maður sé vitlaus að finnast Bréf til Láru góð bók.Eða hvað er svona vont við hana? Að hún ráðist á viðteknar hugmyndir um gildi frjálsar samkeppni en hylli sameignarfyrirkomulagið? Eða á þessi setning hér úr III. kafla ekki akkúrat svo átakanlega vel við núna:„Það er löngu úreltur skrælingjabragur að láta fáfróða og ábyrgðarlausa braskara verzla með líf og velferð almennings."Eru það árásir Þórbergs á katólsku kirkjuna? Hann var sakaður um að skrifa tröllasögur um illa meðferð kirkjunnar á skjólstæðingum, en jafnvel hann með allan sinn haus hafði ekki hugmyndaflug til að ímynda sér allan þann hrylling sem kórdrengir í Bandaríkjunum reyndust hafa mátt þola unnvörpum af sveittri hendi þuklandi klerka. Og eru ekki árásir Þórbergs á böl trúræðisins í fullu gildi fyrir alla sem gjalda varhug við ítökum klerka í samfélögum múslíma?Eru það árásirnar á hina þrúgandi kúgun sveitamenningarinnar og hylling borgarlífsins? Hann skar upp herör gegn öllu því sem var staðnað á Íslandi og til þess fallið að kúga einstaklingana og meina þeim að njóta sín. Bréf til Láru er áróðursrit fyrir mannúð, frjálsri hugsun og frjálsu vali, og sérhver málsgrein geislar þar af hatri á valdþótta og smákóngadrýldni.Vissulega mistókust tilraunir til að koma á fót sameignarþjóðskipulagi hroðalega á 20. öldinni, með ægilegum afleiðingum fyrir milljónir manna. Um það deilir fólk ekki lengur. Og Þórbergur gekk vissulega í björg Stalíns og átti sínar niðurlægingarstundir í þeirri vist. Það vitum við. En ef við einblínum á það þegar við lesum Bréf til Láru þá fer ýmislegt framhjá okkur. Þar má sjá frjálsan anda á tignarlegu flugi. Þar má lesa magnaðar hryllingssögur og vitnisburði um öfgafullt sálarlíf. Þar má njóta ritsnilldar manns með algjört stíleyra. Þar má skemmta sér yfir galgopaskap manns sem tekur sig ekki hátíðlega. Þar gefst þyrstri sál að lesa beitt uppgjör við efnishyggju og andleysi, hlutadýrkun, brask og taumlausa auðsöfnun fárra á kostnað fjöldans - allt raunveruleg vandamál okkar daga.Gjaldþrot kommúnismans gerir kapítalismann ekki gáfulegri í sjálfu sér.Bréf til Láru er góð bók því hún bendir út fyrir ramma vanahugsunar. Hún hvetur okkur til að hugsa lengra - og hugsa sjálfstætt saman.