Þýski ökuþórinn Timo Glock hjá Toyota er næstvinsælasti Formúlukappinn í Bretlandi í dag eftir að hafa hleypti Lewis Hamilton framúr sér í síðustu beygjunni í Brasilíukappakstrinum í gær.
Sumum þótti loðið að sjá hve hægt Þjóðverjinn ók á lokahringnum, en það átti sér sínar eðlilegu skýringar þar sem hann var einn fárra manna sem ekki voru komnir á regndekk í bleytunni.
"Það var mikil rigning og því var síðasti hringurinn gríðarlega erfiður. Ég reyndi að aka eins hratt og ég gat en ég átti fullt í fangi með að halda bílnum á brautinni - enda tapaði ég sætum á lokasprettinum. Það er svo sem ágætt að ná inn á topp sex í ljósi þess að ég var í vandræðum með bílinn framan af helgi, en ég er vonsvikinn af því ég hefði geta náð fjórða sætinu," sagði hinn 26 ára gamli Þjóðverji.

