Erlent

Finnar segjast geta varist Rússum

Óli Tynes skrifar
Finnar ráða meðal annars yfir F-18 orrustuþotum frá Bandaríkjunum.
Finnar ráða meðal annars yfir F-18 orrustuþotum frá Bandaríkjunum.

Finnar eru órólegir vegna þróunarinnar í Rússlandi og sérstaklega vegna stríðsins í Georgíu. Finnar hafa sjálfir háð tvö stríð við Rússa.

Tarja Halonen forseti Finnlands sagði á fundi með sendiherrum landsins á dögunum að stríð í Evrópu sem Rússar ættu aðild að væri ógnvekjandi og umhugsunarefni fyrir Finna.

Hinsvegar ættu Finnar öflugan her. "Við erum eitt af fáum löndum í Evrópu sem geta varið landamæri sín hernaðarlega," sagði hún. "Við það höldum við okkur og við munum efla herinn enn frekar."

Þótt rússneski herinn sé margfallt stærri en sá finnski er það rétt hjá forsetanum að finnski herinn er mjög öflugur. Hann er vel búinn vopnum, meðal annars orrustuflugvélum frá Bandaríkjunum og skriðdrekum frá Þýskalandi.

Og á vígvellinum hafa finnskir hermenn jafnan sýnt einstaka hörku og þrautsegju. Eins og Rússar hafa raunar ástæðu til þess að minnast.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×