Fredrikstad hefur ekki sagt sitt síðasta í titilslagnum í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Garðar Jóhannsson skoraði síðara mark liðsins í 2-1 sigri þess á Lilleström á útivelli í dag.
Fredrikstad er þar með komið með 42 stig þegar þrjár umferðir eru eftir, en Stabæk er með 48 stig í efsta sætinu og hefur pálmann í höndunum. Tromsö er í þriðja sæti deildarinnar með 39 stig en tapaði í dag 2-1 fyrir Viking á útivelli.
Í lokaleik kvöldsins tapaði svo Lyn heima fyrir Rosenborg 2-1. Indriði Sigurðsson og Theodór Elmar Bjarnason voru í byrjunarliði Lyn og Arnar Darri Pétursson sat á bekknum en kom ekki við sögu.